Samtal fjögurra þingmanna Miðflokksins, þeirra Gunnars Braga Sveinssonar, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, Bergþórs Ólasonar og Önnu Kolbrúnar Árnadóttur, við þingmenn Flokks fólksins náðist á upptöku sem DV og Stundin hafa undir höndum. Í upptökunni má heyra þingmennina, sem staddir voru á barnum Klaustur fyrr í mánuðinum, tala með niðrandi hætti um ýmsa samstarfsmenn sína.
Áðurnefndir þingmenn Miðflokksins báðust afsökunar á ummælum sínum í sameiginlegri yfirlýsingu sem þeir sendu frá sér í dag.

Engar fjöldaúrsagnir
Innt eftir því hvort einhverjir hafi sagt sig úr Miðflokknum í kjölfar fréttaflutnings af upptökunum segir Hólmfríður að tvær úrsagnir hafi verið tilkynntar í dag. Þar á meðal er úrsögn Vilborgar G. Hansen en hún sagði sig bæði úr flokknum í dag og hætti sem varamaður í bankaráði Seðlabanka Íslands, þar sem hún var fulltrúi Miðflokksins, vegna ummæla flokksfélaganna.„En það er ekki eins og menn eru að halda fram á öðrum miðlum að það séu einhverjar fjöldaúrsagnir úr flokknum, það er ekki rétt,“ segir Hólmfríður.
Sjá einnig: Reiknar með að sleppa áfenginu í veislunni á Bessastöðum í kvöld
Þá hafi töluvert borið á því síðasta sólarhringinn að meðlimir sendi forystu flokksins stuðningsyfirlýsingar.
„Við höfum fengið nokkrar stuðningsyfirlýsingar frá flokksmönnum, að þeir treysti sinni forystu þrátt fyrir allt. Ég hef ekki tekið það saman en það er ýmist í tölvupósti eða fólk að hringja, og í gegnum Facebook-skilaboð. Það er nokkur fjöldi,“ segir Hólmfríður.
„Ég hef bara nánast ekki heyrt neina gagnrýni. En svo veit maður aldrei, þetta er allavega staðan núna.“
Tæplega 1500 manns eru skráðir í Miðflokkinn, sem mældist þriðji stærsti flokkurinn á Alþingi í nýjustu könnun MMR á fylgi stjórnmálaflokkanna. Samkvæmt könnuninni mældist flokkurinn með 12,1% fylgi.