Fjölmargar athugasemdir bárust en fyrir skemmstu voru birt ný drög þar sem tekið hafði verið tillit til margra þeirra athugasemda sem fram komu. Athugasemdir um akstursreglur í hringtorgum bárust í fyrra skiptið en ákvæðið stendur óbreytt. Í gildandi umferðarlögum eru engar reglur til um akstur í hringtorgum. Í frumvarpsdrögunum er stefnt að því að festa í lög þá óskráðu venju sem myndast hefur um að ökumaður á ytri hring skuli veita innri hringnum forgang og að óheimilt sé að skipta um akrein inni í hringtorgum.
Sjá einnig: Hringtorgasaga túrista á Íslandi dapurleg
Bifreiðar í hringtorginu eiga áfram forgang á þá bíla sem vilja komast inn í það. „Þessi séríslenska regla er ekki góð og við ættum að aðlagast því sem er víðast í gildi. Flest lönd í kringum okkur miða við hægri regluna en vinstri rétturinn er arfleifð frá því að breytt var yfir í hægri umferð,“ segir Runólfur.

Ákveðið hafi verið að halda í venjuna í ljósi þess hve rótgróin hún er enda væri um grundvallarbreytingu að ræða. „Hér á landi erum við að upplifa stóraukna umferð erlendra aðila á vegum. Þeir eru í óvissu í hringtorgunum okkar. Við erum einnig ferðaþyrst þjóð og það ætti að vera gott að samræma þetta til að við séum sem öruggust erlendis,“ segir Runólfur.
Að sögn Runólfs hafa mál komið inn á borð lögreglu og tryggingafélaga sem varða óhöpp sem orðið hafa vegna séríslenskra reglna um hringtorg. Flest óhöppin eru minniháttar enda hringtorg þess eðlis að þau hægja á umferð. „Ég tel að það sé æskilegt að taka upp hjá okkur þá siði sem víða þekkjast erlendis. Reynslan á erlendri grund hefur leitt í ljós að þetta hefur virkað ágætlega ytra. Það er einfaldlega skortur á víðsýni að ætla sér að ríghalda í þær hefðir sem hér hafa myndast,“ segir Runólfur