Erfiðlega hefur gengið að slökkva eld á neðri hæði hússins, þar sem bílaverkstæði og annar iðnaðarekstur var til húsa og logar hann enn. Fyrr í kvöld var reynt að dæla froðu að eldunum en það virðist ekki hafa borið árangur. Sama hvað reynt var gaus eldurinn upp aftur. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu logar eldurinn í tæplega þrjú hundruð fermetra rými þar sem mikið magn plastprófíla fyrir járnamottur voru í geymslu. Reykurinn sem leggur frá húsinu hefur nær ekkert minnkað frá því í morgun en meira en sólarhringur er liðinn frá því fyrsta tilkynning barst um brunann.
Nú er bara einn dælubíll slökkviliðsins á svæðinu og munu tveir slökkviliðsmenn fylgjast með framvindunni í nótt. Fjölmargir slökkviliðsmenn hafa komið að slökkvistarfinu í dag en reynt hefur verið að halda ákveðnu rennsli. Þegar mest var voru fimmtán til tuttugu slökkviliðsmenn að störfum.
Tilkynning barst um eldinn skömmu eftir klukkan tíu í gærkvöldi og þegar slökkviliðsmenn bar að garði var efri hæð hússins, þar sem Glugga- og hurðasmiðja SB var til húsa, alelda.