Björn Þorfinnsson skákmaður er einn þeirra, hann var mikill vinur Stefáns auk þess sem hann starfar sem blaðamaður á DV. Hann skrifar einlæga og upplýsandi grein um Stefán þar sem segir að hann hafi verið einn hæfileikaríkasti skákmaður sem Ísland hefur eignast. Stefán hafi verið einstakur; heillað flesta sem honum kynntust og var frægur fyrir stáltaugar sínar, greind og kímnigáfu. Var hann kallaður „pönkið“ í skákheiminum.
Stáltaugar og engin óþarfa virðing fyrir þeim sem eldri voru
„Til að bæta gráu ofan á svart reif hann oft kjaft eftir skákir en þó alltaf á góðlátlegan hátt og með húmorinn að vopni. Við, hinir eldri, vorum sem slegnir yfir þessum unga nýliða sem virti ekki þann sjálfsagða skákvaldastrúktúr, að okkar mati, sem hafði verið mörg ár að skapast. Þess vegna fékk Stefán viðurnefnið „Pönkið“ því hann var eins manns uppreisn í skáksamfélaginu! Kunni hann vel að meta þetta viðurnefni.“
Póker og eiturlyfjadjöfull
Í samtölum Vísis við vini Stefáns kemur fram að hann hafi efnast ágætlega á spilamennsku á netinu, svo mjög að hann átti á sínum tíma skuldlausa íbúð, Lexus og vænar fúlgur fjár. En, það fór allt vegna þess að samhliða því þróaði Stefán með sér fíkn sem hann missti taumhald á. Og fyrir átta árum varð hann fyrir verulegu áfalli þegar móðir hans Margrét Stefánsdóttir slasaðist og þurfti hjálp við allar sínar athafnir uppfrá því. Það lagðist afar þungt á Stefán. Árið 2014 greindi DV frá afleiðingum þess slyss og ræddi við dætur hennar.
Súpergreindur og falleg hrein sál
Og á Facebooksíðu sinni syrgir Lára Stefánsdóttir hinn hæfileikaríka systurson sinn opinni færslu.„Stebbi var súper greindur, andlega sinnaður og einn fallegasti maður á jarðríki, innan frá og út, talaði aldrei illa um náungann og hafði alltaf það markmið að bæta sig og fara eftir lífsreglunum fjórum sem eru byggð á lífsspeki Toiteka-Indíana,“ skrifar Lára. Og kemur einnig inn á harminn sem hinn skæði sjúkdómur sem er fíkn kallaði yfir hann og fjölskylduna.
„Stebbi var einfaldlega of góður, of klár fyrir harðan heim og varð eiturlyfjum að bráð. Góðar minningar um fallega hreina sál lifir og sólin skín þar í gegn.“
Skákheimurinn í sárum
Stefán lætur eftir sig einn son. Í samtali við Vísi segir Björn að skákheimurinn syrgi ákaft sinn mann. Og þar takast á sterkar tilfinningar, því á sunnudaginn hlaut Bragi Þorfinnsson, bróðir Björns, loks stórmeistaratitil sinn.„Rússibanareið í íslenskum skákheimi. Nú yfirstandandi Íslandsmót skákfélaga. Fyrsta umferðin í kvöld. Í Rimaskóla í íþróttasalnum þar. Þar verður erfið stund,“ segir Björn.