Fimm manns voru um borð í Econoline sem fór niður um klaka í Fiská fyrir ofan Vatnsdal klukkan 12:51 í dag.
Að sögn Sveins Kristjáns Rúnarssonar, yfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á Suðurlandi, náði fólkið að komast af sjálfsdáðum út úr bílnum og upp á þak. Er búið að bjarga þeim af þaki bílsins og þau komin inn í bíl hjá björgunaraðilum en ekkert þeirra er slasað að sögn Sveins.
Mikill viðbúnaður var vegna slyssins en þrjár björgunarsveitir frá Hellu, Hvolsvelli og Selfossi voru kallaðar út á hæsta forgangi og sérþjálfað fólk í straumvatnsbjörgun sent á staðinn.
Þá var þyrla Landhelgisgæslunnar einnig kölluð út en beiðnin hefur verið afturkölluð og viðbragðið minnkað vegna slyssins þar sem betur fór en á horfðist.
Fréttin var síðast uppfærð klukkan 13:20.
Fimm bjargað af þaki bíls sem fór niður um klaka í Fiská
