Enski boltinn

Berbatov kennir leikmönnum United að nýta styrkleika Lukaku

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Dimitar Berbatov er þreyttur á þessari neikvæðni.
Dimitar Berbatov er þreyttur á þessari neikvæðni. skjáskot

Romelu Lukaku, framherji Manchester United, hefur ekki beint verið á skotskónum að undanförnu en hann er þó búinn að skora tvö mörk í síðustu þremur leikjum liðsins í ensku úrvalsdeildinni.

Áður en Lukaku kom boltanum í netið í 2-2 jafntefli United gegn Southampton á útivelli var hann búinn að spila sjö leiki í röð án þess að skora en vegna þess hefur Belginn verið gagnrýndur harkalega.

Dimitar Berbatov, fyrrverandi framherji Manchester United, kom Lukaku til varnar í þætti á Sky Sports um síðastliðna helgi þegar að hann var spurður hversu mikilvægt markið gegn Tottenham var fyrir belgíska framherjann.

„Auðvitað var þetta mikilvægt mark og vafalítið var þetta mikill léttir fyrir hann. Ég skil bara ekki hvers vegna allir einbeita sér svona mikið að því þegar að menn skora ekki í fimm, sex eða sjö leikjum í röð. Þetta er svo neikvætt. Fólk dreifir neikvæðni út um allt,“ sagði Berbatov.

„Maðurinn er fullmeðvitaður um að hann er ekki að skora og fer svekktur heim eftir að skora ekki í enn einum leiknum. Hvaða áhrif haldið þið að þetta hafi á sjálfstraust hans? Það er í kjallaranum. Heldur fólk að hann vilji ekki skora? Hann vill skora í hverjum leik,“ sagði Búlgarinn.

Berbatov finnst Lukaku góður leikmaður en finnst sömuleiðis að styrkleikar hans séu illa nýttir inn á vellinum.

„Ég er mjög hrifinn af honum. Hann er góður á boltanum og er sterkur en liðsfélagar hans þurfa að vita hverjir styrkleikar hans eru. Fyrsta snertingin hans er kannski ekki eins góð og hjá öðrum leikmönnum liðsins. Áttið ykkur þá á því og gefið á hann sendingu sem að hann ræður við og sendingu sem lætur hann líta vel út,“ segir Berbatov.

„Byggið upp sjálfstraust hans. Þetta er aðalframherji liðsins sem verður að skora mörk,“ segir Dimitar Berbatov.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.