Innlent

Ætla að sýna Báru stuðning fyrir utan héraðsdóm í dag

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Bára Halldórsdóttir.
Bára Halldórsdóttir. Vísir/Arnar

Bára Halldórsdóttir, konan sem tók upp samræður þingmannanna sex á barnum Klaustri á dögunum, mun mæta til þinghalds í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag vegna mögulegs einkamáls á hendur henni vegna málsins. Fjöldi manns hyggst mæta fyrir utan héraðsdóm í dag til að sýna henni stuðning.

Sex þingmenn sátu að sumbli á Klausturbar 20. nóvember síðastliðinn en Bára tók samtalið upp og sendi síðan þremur fjölmiðlum upptökurnar. Lögmaður fjögurra þingmanna Miðflokksins, þeirra Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, Gunnars Braga Sveinssonar, Önnu Kolbrúnar Árnadóttur og Bergþórs Ólasonar, sem tóku þátt í samtalinu á Klaustri óskaði eftir því að Bára yrði boðuð til þinghalds vegna upptökunnar, þar sem dómsmál kunni að vera höfðað á hendur henni.

Sjálf hefur Bára sagt að hún ætli að mæta, hún sé óhrædd að mæta Miðflokksþingmönnum fyrir héraðsdómi. Nýtur hún fulltingis Ragnars Aðalsteinssonar lögmanns sem í samtali við Vísi fyrir helgi sagði málið allt vera „mjög óljóst“.

Mótmælendur klæddir gulum vestum hafa valdið miklum usla víðs vegar um Frakkland síðsutu vikurnar. Etienne De Malglaive/Getty

Fólk mæti ekki í gulum vestum

Um 250 manns hafa boðað komu sína við héraðsdóm í dag til þess að sýna Báru stuðning. Viðburðurinn er auglýstur á Facebook undir nafninu „Takk Bára“

„Mætum, sýnum Báru stuðning og sýnum jafnframt hversu ömurlegt það er hjá þessum aðilum, ofan á það að kunna ekki að skammast sín, að kalla uppljóstrarann fyrir dóm,“ segir í lýsingu viðburðarsins.

Þar eru þeir sem ætlir að mæta beðnir um að geyma allar mótmælaaðgerðir enda sé ætlunin að styðja Báru, því sé ekki mælst til þess að fólk mæti í gulum vestum, líkt og mótmælendur í Frakklandi og Belgíu hafa klæðst undanfarnar vikur.

Þá er bent á að hópurinn muni ekki, í það minnsta allur, geta farið með Báru inn í dómsal, það sé einnig undir Báru komið, hafi hún áhuga á því, að velja þá sem komi með henni þangað inn.

Þinghaldið er á dagskrá Héraðsdóms Reykjavíkur klukkan þrjú í dag.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.