Innlent

Formaður Dómarafélagsins vonsvikinn með krónutöluna en fagnar frumvarpinu

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Ingibjörg Þorsteinsdóttir, formaður Dómarafélags Íslands
Ingibjörg Þorsteinsdóttir, formaður Dómarafélags Íslands FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON
Formaður Dómarafélags Íslands (DÍ) lýsir yfir vonbrigðum með krónutöluna sem dómurum er ákveðin í frumvarpi um nýtt launafyrirkomulag embættismanna sem áður heyrðu undir kjararáð. Hún fagnar hins vegar þeim fyrirsjáanleika og gagnsæi sem í frumvarpinu felst.

Frumvarpið var birt á vef Alþingis í gær. Í því felst að laun ákveðinna embættismanna og hópa, til að mynda þingmanna, saksóknara og dómara, verða ákveðin með fastri krónutölufjárhæð í lögum. Sú tekur breytingum einu sinni á ári í samræmi við breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins fyrir næsta almanaksár.

Í tilfelli dómara er hin fasta krónutala sú sama og kjararáð ákvað. Landsréttardómarar og varaforseti Hæstaréttar fengu launaákvörðun árið 2017 en um aðra dómara gildir ákvörðun frá árinu 2015 auk almennrar hækkunar frá 2016. Líklegt er að lögin verði samþykkt fyrir áramót og fyrsta breyting samkvæmt þeim verði 1. júlí á næsta ári. Það þýðir því að laun flestra dómara landsins munu engum breytingum taka í þrjú ár.

„Við höfum í raun beðið eftir því að lögum væri fylgt. Þegar lögunum um kjararáð var breytt árið 2016 kom inn skýrt ákvæði um að laun yrðu endurskoðuð minnst einu sinni á ári en engin ný ákvörðun var tekin og erindum okkar ekki svarað,“ segir Ingibjörg Þorsteinsdóttir, formaður DÍ.

Formaðurinn segir það vel að breytingar á launum dómara verði fyrirsjáanlegar. Hins vegar sé þungt hljóð í mörgum dómurum þar sem laun þeirra hafi engum breytingum tekið í mörg ár. Hún telur líklegt að stjórn DÍ muni funda vegna efnis frumvarpsins.

„Það hefur verið frysting á launum í mörg ár og sú staðreynd kallar á að við endurskoðun fyrirkomulagsins verði tekið tillit til þess,“ segir Ingibjörg.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.