Innlent

Stefnir í 18 stiga frost

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Brr!
Brr! Vísir/vilhelm

Norðanáttin er loksins að gefa eftir og élin sem hafa dunið á norðanverðu landinu fara minnkandi í dag. Þá herðir frost en ætla má að það geti farið í um 18 stig á norðaustanverðu landinu á morgun.

Samkvæmt Veðurstofunni verður áfram nokkuð bjart sunnantil en að það muni þykkna upp um landið vestanvert. Ætla má að það muni snjóa þar í nótt, þar á meðal á höfuðborgarsvæðinu.

Gert er ráð fyrir því að frostið verði á bilinu 2 til 8 stig í dag.

„Þrátt fyrir að norðanáttin sé að gefa eftir staldrar nístingskalt loft úr norðri við hjá okkur og má búast við hörkufrosti í dag og á morgun,“ segir á vef Veðurstofunnar og er þar vísað sérstaklega til Norður- og Norðausturlands.

Þá er útlit fyrir snjókomu með köflun á morgun eða él nokkuð víða en þegar líður á deginn styttir að mestu upp. Um miðja viku mun svo lægð nálgast úr suðvestri með hlýnandi veðri og bætir í vind með suðurströndinni, jafnvel austanhvassviðri eða stormur um tíma á fimmtudag með rigningu sunnan- og austanlands.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á þriðjudag:
Vestlæg eða breytileg átt, 3-10 m/s og snjókoma eða él, síst N-lands. Frost 2 til 18 stig, kaldast NA-til, en mildast við SV- og S-ströndina.

Á miðvikudag:
Vaxandi suðaustanátt með snjókomu S- og SV-til, en síðan slyddu eða rigningu, annars þurrt. Hiti 0 til 5 stig með S- og SV-ströndinni, en frost 0 til 12 stig annars staðar.

Á fimmtudag:
Allhvöss eða hvöss austlæg átt með rigningu, en úrkomulítið fyrir norðan. Hlýnar í veðri.

Á föstudag og laugardag:
Austlæg átt með dálítilli rigningu eða snjókomu á víð og dreif, einkum A-til. Frost um mest allt land, en upp í 5 stiga hita með S-ströndinni.

Á sunnudag:
Útlit fyrir vaxandi suðaustlæga átt og lítilsháttar vætu S-lands.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.