Fótbolti

Stelpurnar standa í stað á síðasta heimslista ársins

Stelpurnar okkar töpuðu fyrir Þjóðverjum í september.
Stelpurnar okkar töpuðu fyrir Þjóðverjum í september. vísir/vilhelm

Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta er í 22. sæti á nýjum heimslista FIFA sem gefinn var út í morgun og standa því í stað frá síðasta lista sem gefinn var út í september.

Íslenska liðið var í 19. sæti á fyrstu tveimur listum ársins sem komu út í mars og júní en féll svo um fjögur sæti á listanum í september og er áfram í 22. sætinu.

Stelpurnar okkar náðu ekki markmiði sínu í ár að komast á HM 2019 í Frakklandi en þær þurftu sigur gegn Tékklandi í lokaleik ársins. Ísland gerði aðeins jafntefli í leiknum en Sara Björk Gunnarsdóttir brenndi af vítaspyrnu í uppbótartíma.

Bandaríkin eru áfram í efsta sæti listans og Þjóðverjar í öðru sæti en Frakkar fara upp í þriðja sætið og Englendingar falla um eitt niður í það fjórða.

Ísland er í 13. sæti á Evrópulistanum á eftir Belgíu en á undan Austurríki sem valtaði yfir stelpurnar okkar á EM 2017 í Hollandi á síðasta ári.

Jón Þór Hauksson tók við kvennalandsliðinu í haust af Frey Alexanderssyni en fyrsta stóra verkefnið hans verður Algarve-mótið í mars á næsta ári.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.