Fótbolti

Stelpurnar standa í stað á síðasta heimslista ársins

Stelpurnar okkar töpuðu fyrir Þjóðverjum í september.
Stelpurnar okkar töpuðu fyrir Þjóðverjum í september. vísir/vilhelm
Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta er í 22. sæti á nýjum heimslista FIFA sem gefinn var út í morgun og standa því í stað frá síðasta lista sem gefinn var út í september.

Íslenska liðið var í 19. sæti á fyrstu tveimur listum ársins sem komu út í mars og júní en féll svo um fjögur sæti á listanum í september og er áfram í 22. sætinu.

Stelpurnar okkar náðu ekki markmiði sínu í ár að komast á HM 2019 í Frakklandi en þær þurftu sigur gegn Tékklandi í lokaleik ársins. Ísland gerði aðeins jafntefli í leiknum en Sara Björk Gunnarsdóttir brenndi af vítaspyrnu í uppbótartíma.

Bandaríkin eru áfram í efsta sæti listans og Þjóðverjar í öðru sæti en Frakkar fara upp í þriðja sætið og Englendingar falla um eitt niður í það fjórða.

Ísland er í 13. sæti á Evrópulistanum á eftir Belgíu en á undan Austurríki sem valtaði yfir stelpurnar okkar á EM 2017 í Hollandi á síðasta ári.

Jón Þór Hauksson tók við kvennalandsliðinu í haust af Frey Alexanderssyni en fyrsta stóra verkefnið hans verður Algarve-mótið í mars á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×