Fótbolti

AGF með söfnun fyrir Tómas Inga í Danmörku

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tómas Ingi Tómasson
Tómas Ingi Tómasson Mynd/Twittter/@AGFFodbold

Styrktarleikur fyrir Tómas Inga Tómasson og fjölskyldu hans, fer fram á sunnudaginn í Egilshöllinni en þar ætla vinir hans og félagar úr fótboltanum að safna fyrir Tómas Inga.

Tómas Ingi fær ekki aðeins stuðning frá Íslandi því gamla liðið hans, AGF í Danmörku, hefur líka sett af stað söfnun. Tómas Ingi lék með AGF um aldarmótin.

Tómas Ingi hefur ekki náð bata frá því að hann fékk gervimjöðm í ársbyrjun 2015 en fótboltaferillinn tók sinn toll líkamlega og var þessi aðgerð nauðsynleg. Hún gekk hinsvegar illa og þrjár aðgerðir til viðbótar hafa ekki skilað árangri.Tómas Ingi spilaði með nokkrum liðum á sínum ferli og eignaðist marga vini bæði hér á Íslandi og eins í Danmörku.

Tómas bíður nú eftir því að komast í aðgerð í Þýskalandi þar sem síðustu fjórar aðgerðir hér heima hafa ekki skilað árangri. Þetta er kostnaðarsamt fyrir Tómas Inga en ofan á öll veikindin hafa bæst fjárhagsáhyggjur.

AGF segir frá raunum Tómasar Inga á heimasíðu um leið og er sagt frá styrktarleiknum. Þar kemur fram að það sé líka möguleiki að styrkja Tómas Inga í Danmörku.

AGF rifjar upp eftirminnilegt mark sem Tómas Ingi skoraði fyrir félagið en hann skoraði 4 mörk í 37 leikjum fyrir danska félagið. Það má lesa meira um það hér.

Tommadagurinn eins og viðburðurinn er kallaður fer fram á sunnudaginn 9. desember en hann hefst með knattþrautum með Eyjólfi Sverrissyni, Rúnari Kristinssyni og Arnar Grétarssyni klukkan 9.45.  

Úrslitaleikur Tommamótsins á milli pressuliðs Rúnars Kristinssonar og landsliðs Eyjólfs Sverissonar hefst síðan klukkan 11.00. Gummi Ben og Magnús Gylfason ætla að lýsa leiknum.

Frjáls framlög eru við innganginn en einnig er hægt að styrkja verkefnið með því að leggja inn á reikning.

Reikningsnúmerið er: 528-14-300 og kennitalan er: 070669-4129

„Tómas Ingi Tómasson yfirþjálfari yngri flokka Fylkis og aðstoðarþjálfari 21 árs landsliðs Íslands hefur ekki náð bata frá því að hann fékk gervimjöðm í ársbyrjun 2015. Tommi var afburða knattspyrnumaður sem spilaði með ÍBV, KR, Grindavík og Þrótti hér heima við góðan orðstýr en það tók sinn toll líkamlega og aðgerðin var óumflýjanleg. Árið 2018 hefur verið einstaklega erfitt líkamlega og andlega fyrir hann og fjölskyldu hans, þar sem Tommi hefur eytt yfir 200 dögum inni á spítala frá því í apríl. Hann bíður nú þess að komast í aðgerð í Þýskalandi þar sem síðustu 4 aðgerðir hérlendis hafa ekki skilað árangri. Ofan á allt þetta hafa svo bæst fjárhagsáhyggjur og því er komið að okkur; vinum, velunnurum og ættingjum að leggjast á eitt til að styðja Tomma og fjölskyldu hans. Gangi þér vel Tommi!,“ segir um Tommadaginn á viðurburðarsíðu hans á fésbókinni.
Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.