Fótbolti

Komust hjá reglum með æfingaleik sem aldrei var spilaður

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Falcao átti erfitt uppdráttar hjá United og ákvað félagið að nýta sér ekki möguleikann á að kaupa Kólumbíumanninn að loknum eins árs lánssamningnum
Falcao átti erfitt uppdráttar hjá United og ákvað félagið að nýta sér ekki möguleikann á að kaupa Kólumbíumanninn að loknum eins árs lánssamningnum vísir/getty
Manchester United og Mónakó settu á laggirnar vináttuleik til þess að komast hjá reglum frönsku úrvalsdeildarinnar þegar Radamel Falcao fór á lán til Englands.

Þetta kemur fram í nýjustu gögnum vefsíðunnar Football Leaks samkvæmt grein frönsku vefsíðunnar Mediapart.

Falcao kom til United á láni sumarið 2014. Mónakó vildi fá 10 milljónir evra fyrir að senda kólumbíska framherjann til Englands en United vildi gera fjórar af þeim milljónum bundnar við það að United næði í eitt af efstu fjórum sætum ensku úrvalsdeildarinnar tímabilið 2014-15.

Reglur í Frakklandi banna hins vegar árangurstengdar greiðslur sem slíkar.

Til þess að komast hjá þeim reglum ákváðu félögin að gera tvo samninga. Annars vegar samþykkti United að greiða 6 milljónir evra fyrir lánssamning Falcao. Hins vegar gerðu félögin með sér samning um að United myndi borga 4,5 milljónir evra fyrir að spila vináttuleik í júlí 2015 ef liðið næði fjórða sætinu.

Vorið 2015 endaði United í fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar á fyrsta tímabili Louis van Gaal með liðið. John Alexander, skrifstofustjóri félagsins, sendi Mónakó bréf í maílok 2015 og sagði að knattspyrnustjórinn van Gaal ætlaði ekki að spila neina æfingaleiki fyrir utan þá sem félagið spilaði á æfingaferð sinni um Bandaríkin.

Mónakó sendi þá United reikning upp á 4 milljónir evra sem borgast átti 30. júní þann dag. Ekki kemur fram í fréttum af málinu hvort sá reikningur hafi verið greiddur.

Enskir fjölmiðlar leituðust eftir svörum frá United vegna málsins en félagið vill ekki tjá sig að svo stöddu. Talsmaður Mónakó sagði við Mediapart að „allir samningar félagsins fara eftir lögum og reglum.“


Tengdar fréttir

Man. City var með hernaðaráætlun um hvernig væri best að svindla

Þýski miðillinn Der Spiegel heldur áfram að uppljóstra um leynimakk eigenda Man. City í dag sem meðal annars notuðu leifarnar af Kaupþing í Lúxemborg til þess að hylma yfir skipulagt svindl félagsins svo það lenti ekki í vandræðum gagnvart UEFA.

Hinir ríku ráða fótboltaheiminum

Í lokagrein Der Spiegel um Man. City er farið yfir hvernig félagið getur náð yfirburðastöðu í fótboltaheiminum þökk sé djúpum vösum eigenda félagsins. Félagið sé einfaldlega í stöðu sem flest önnur lið geti ekki keppt við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×