Erlent

Partýbátur sökk í mannskaðaveðri á Viktoríuvatni

Andri Eysteinsson skrifar
Frá Viktoríuatni, mynd tengist efni fréttarinnar ekki beint.
Frá Viktoríuatni, mynd tengist efni fréttarinnar ekki beint. EPA/ Stephen Morrison
22 hafa fundist látnir í Viktoríuvatni eftir að svokallaður partýbátur sökk. Að sögn vitna voru yfir 90 manns um borð í bátnum þegar hann sökk.

26 manns hefur verið bjargað úr vatninu og óttast er að yfir 60 hafi drukknað. Guardian greinir frá.

Báturinn sökk stutt frá bænum Mutima í nágrenni Kampala, höfuðborgar Úganda. Báturinn var yfirfullur af fólki auk þess sem að stormur hafði skollið á.

Yfirvöld hafa greint frá því að hluti þeirra látnu séu veiðimenn sem komu að sökkvandi bátnum og gerðu tilraunir til þess að bjarga fólki. Farþegar hafi stokkið yfir á fiskibátana sem hafi svo einnig sokkið vegna mannfjöldans.

Fjölda fólks er enn saknað og mun björgunarstarf lögreglu halda áfram.

Í september síðastliðnum létust 44 er ferja hvolfdi á vatninu sem er stærsta stöðuvatn Afríku. Mannskæðasta slysið á vatninu var árið 1996 en þá fórust um 800 manns. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×