Aron Einar skoraði í mikilvægum sigri Cardiff

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Aron Einar Gunnarsson.
Aron Einar Gunnarsson. vísir/getty
Aron Einar Gunnarsson var á meðal markaskorara í endurkomusigri Cardiff á Wolves í nýliðaslag í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Sigurinn lyftir Cardiff upp úr fallsætinu.

Leikurinn var ekki mikið fyrir augað í fyrri hálfleik, mikill barningur og barátta.

Það kom þó mark í leikinn á 18. mínútu. Matt Doherty komst framhjá Aroni Einari á fjærstönginni í hornspyrnu Ruben Neves og náði að hamra frákastið eftir skalla Raul Jimenez í þaknetið.

Íslenski landsliðsfyrirliðinn bætti þó upp fyrir sinn hlut í marki Wolves með því að jafna metin fyrir Cardiff í seinni hálfleiknum.

Cardiff fékk hornspyrnu, boltinn féll fyrir Aron Einar í miðjum teignum sem tók hann á kassan áður en hann skaut boltanum í marknetið og skoraði sitt annað úrvalsdeildarmark á ferlinum.

Harry Arter átti tvö frábær skot í átt að marki Wolves, annað þeirra small í samskeytunum í fyrri hálfleiknum, en það var Junior Hoilett sem tryggði Cardiff sigurinn með algjörlega frábæru marki á 77. mínútu.

Boltinn barst til hans á vinstra vítateigshorninu, Hoilett skaut viðstöðulaust og strauk boltinn neðri hluta þverslárinnar og fór þaðan í markið. Eitt af mörkum tímabilsins.

Wolves náði ekki að jafna metin og fögnuðu leikmenn Cardiff gríðarlega mikilvægum sigri sem kemur þeim upp í 15. sæti deildarinnar.

„Það er alltaf gott að ná sigri á heimavelli. Fyrri hálfleikur var ekki nógu góður en við komum út af baráttu í þann seinni og áttum þessi þrjú stig skilið,“ sagði Aron Einar í viðtali við Sky Sports eftir leikinn. 

Viðtal við Nuno Espirito

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira