United bjargaði jafntefli í Southampton

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
United sýndi tennurnar í korter í fyrri hálfleik og það dugði til að taka stig
United sýndi tennurnar í korter í fyrri hálfleik og það dugði til að taka stig vísir/getty
Manchester United gerði jafntefli við Southampton í lokaleik dagsins í ensku úrvalsdeildinni. Southampton hafði komist 2-0 yfir en United kom til baka og bjargaði stigi.

Ferðalagið á suðurströndina virtist hafa setið aðeins í liði United því það leit ekki vel út í upphafi leiks. Heimamenn í Southampton nýttu sér það og skoraði Stuart Armstrong strax á 13. mínútu.

Mark Armstrong var hans þriðja í tveimur leikjum í úrvalsdeildinni, hann skoraði með föstu skoti niður við jörðu í fjærhornið hægra megin í teignum eftir að leikmenn Southampton náðu að spila sig í gegnum alla vörn United.

Aðeins sjö mínútum seinna var Southampton búið að tvöfalda forkot sitt. Cedric skoraði stórkostlegt mark beint úr aukaspyrnu, snéri boltann í nærhornið algjörlega óverjandi fyrir David de Gea. Hans fyrsta úrvalsdeildarmark í 100. leiknum.

Stuðningsmenn United voru líklega flestir farnir að hugsa um að hætta að horfa, útlitið alls ekki gott er lið sem sat í næstneðsta sæti deildarinnar var að leika lærisveina Jose Mourinho grátt.

Á 33. mínútu átti Paul Pogba sendingu inn á Marcus Rashford, sem hafði verið afleitur í leiknum fram að þessu. Englendingurinn ungi tók glæsilegan sprett og stóð af sér varnarmenn Southampton, kom boltanum á Romelu Lukaku sem hamraði boltann í netið.

Fyrsta mark Lukaku fyrir United síðan 15. september, eftir tæpar 1000 mínútur í Unitedtreyjunni án marks.

Mark Herrera var af laglegri gerðinnivísir/getty
Markið kveikti í liði United og sex mínútum síðar var staðan orðin jöfn. Aftur átti Rashford glæsilegan sprett, hann sendi boltann fyrir markið þar sem Ander Herrera tók boltann með hælnum og skilaði honum í netið.

United stóð af sér áhlaup heimamanna undir lok hálfleiksins og staðan jöfn 2-2 þegar liðin gengu til hálfleiks.

Mourinho hefur varla tekið mikla hárblásararæðu í hálfleiknum því lið United var algjörlega bitlaust í seinni hálfleik.

Þegar seinni hálfleikurinn var nærri runninn sitt skeið hafði liðið aðeins átt eitt skot á markið í seinni hálfleiknum og varnarmenn Southampton höfðu vart þurft að hafa neitt fyrir hlutunum.

Besta færi Southampton til þess að taka sigurinn kom á 80. mínútu þegar Nathan Redmond lét vaða af löngu færi og David de Gea þurfti að hafa sig allan við að slá boltann yfir slána. Markið kom þó ekki og niðurstaðan jafntefli.

Southampton sýndi marga jákvæða takta en Mark Hughes er þó líklega vonsvikinn að hafa ekki tekið öll þrjú stigin úr þessum leik. 12 stig hafa nú farið í súginn hjá Southampton á tímabilinu í leikjum þar sem þeir leiddu.

Stigið gerir lítið fyrir bæði lið. Southampton fer yfir Burnley á markatölu en er þó enn í fallsæti. United fer yfir Leicester og er nú jafnt Everton að stigum í 7. sæti.

Viðtal við Jose Mourinho
Viðtal við Mark Hughes

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira