Innlent

Borgin hefur engin áform uppi um að kalla eftir Banksy-mynd Jóns Gnarr

Jakob Bjarnar skrifar
Meðan ýmsum sárnar hreinlega fyrir hönd Jóns og telja umræðuna óviðeigandi eru aðrir sem telja þarna óeðlilega að málum staðið.
Meðan ýmsum sárnar hreinlega fyrir hönd Jóns og telja umræðuna óviðeigandi eru aðrir sem telja þarna óeðlilega að málum staðið.
Borgin hefur engin áform uppi um að kalla eftir mynd sem Jón Gnarr hlaut að gjöf frá hinum heimsþekkta myndlistar- og gjörningamanni Banksy. Þetta kemur fram í svari frá Bjarna Brynjólfssyni upplýsingastjóra Reykjavíkurborgar.

„Þetta var skoðað á sínum tíma, var persónuleg gjöf til hans. Löngu búið að vera í ferli, kom upp rétt eftir að hann hætti og borgin tekur orð Jóns Gnarr trúanleg um að þetta hafi verið persónuleg gjöf. Er ekki í neinu ferli hjá borginni og stendur ekki til að kalla eftir því að fá verkið til baka,“ segir Bjarni.

Sómi Jóns

Eftir að Fréttablaðið greindi frá því að myndin sem Jón Gnarr hlaut að gjöf frá hinum heimsþekkta listamanni væri komin heim í stofu til Jóns, en hún hékk lengi uppi í Ráðhúsi Reykjavíkur, nánar tiltekið á skrifstofu borgarstjóra samkvæmt skilyrðum sem listamaðurinn setti þá er hann gaf borgarstjóra verkið, hefur þetta verið til umræðu í netheimum. Jón lítur svo á að um persónulega gjöf til sín sé að ræða en um það er deilt.

Hér getur að líta dæmigert verk eftir Banksy, verk sem hann gerir á veggi í almannarými. Seinna eru svo gerðar eftirprentanir af þeim verkum eða plagöt eftir atvkum.
Snæbjörn Brynjarsson, listgagnrýnandi og varaþingmaður Pírata, skrifaði pistil um málið á bloggsíðu sína þar sem hann segir Jón lítinn sóma hafa af málinu. Hann bendir á að Vigdís Finnbogadóttir hafi á sínum tíma fengið persónulega gjöf frá Jaqueline Picasso, styttu sem eiginmaður hennar gerði af henni stuttu fyrir andlát sitt. Vigdís leit svo á að það verk tilheyrði íslensku þjóðinni en ekki sér persónulega og er það nú í Listasafni Íslands. „Það er Jón Gnarr til lítils sóma að taka listaverk heim til sín sem ætti að vera til sýnis í almenningsrými. Kannski á listasafni Reykjavíkur, kannski í ráðhúsinu eins og listamaðurinn virðist hafa ætlast til, en allavega einhvers staðar þar sem borgarbúar fá að njóta þess. Því verkið var gjöf til fulltrúa sem starfaði í þeirra þágu.“

Ólga vegna málsins í netheimum

Borgarfulltrúi Viðreisnar, Pawel Bartozek, segist ekki deila þeirri skoðun Jóns að um persónulega gjöf geti verið að ræða. „Gjafir sem maður fær meðan maður er kjörinn fulltrúi eru gjafir sem ætti að tilkynna, hið minnsta. Það geri ég,“ segir Pawel meðal annars á Facebooksíðu Einars Steingrímssonar stærðfræðings sem er þeirrar skoðunar að fráleitt sé að Banksy hefði gefið Jóni verkið, það hljóti að tengjast því embætti sem Jón gegndi. Pawel segir borgina miða við gjafir að verðmæti 50 þúsund krónur en sjálfur skráir hann allt sem hugsanlega getur flokkast undir hagsmunatengsl.

Svo eru þeir sem telja þessa umræðu beinlínis óviðeigandi. Meðal þeirra eru Guðmundur Andri Thorsson þingmaður Samfylkingar sem telur, í stuttum pistli á sinni Facebooksíðu, að um vandlætingu sé að ræða, magnað upp af óvildarmönnum Jóns. Fjölmargir hafa tekið undir með Guðmundi Andra að um ómerkilega aðför að Jóni sé að ræða.

 

Ýmsum sárnar fyrir hönd Jóns

Jón sjálfur hefur greint frá því hvernig málið horfir við sér í ítarlegum pistli á Facebook. Þar segir hann í athugasemd að umræðan hafi komið illa við sig, svo mjög að hún sló hann nánast út af laginu gagnvart afmælissýningu hans í Hörpu Eldborgarsal – Ég var einu sinni nörd.

Verk Banksy var í öndvegi á borgarstjóraskrifstofunni í tíð Jóns.fbl/gva
Ýmsir vilja lýsa yfir fullum stuðningi við Jón Gnarr, þeirra á meðal Helga Vala Helgadóttir þingmaður Samfylkingar sem telur málið allt fáránlegt, storm í vatnsglasi og Svanhildur Konráðsdóttir forstöðumaður Hörpu áður sviðsstjóri menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkurborgar: „Þetta er nú meira ruglið...! Þekki Listasafnið ekki af öðru en að vera á 100% vaktinni og þau hefðu tryggt að ef þetta væri frumgerð þá færi hún lóðbeint í safnið. En með listamann eins og Banksy þá er hugtakið frumgerð og eftirmynd dálítið óræð svo ekki sé meira sagt... Gott að þú skýrir þetta kæri Jón...“

Munur á plakati og eftirprentun

Ef litið er hjá siðareglum borgarinnar og hvernig ber að umgangast gjafir kjörinna fulltrúa; hvaða reglur eiga um það að gilda, þá er önnur spurning sem að þessu snýr sem er sú um hvers konar verk er að ræða? Er um eftirprentun eða plakat? Banksy er fyrst og fremst þekktur sem götulistamaður sem hefur einkum gert graffití á veggi stórborga sem vakið hafa mikla athygli. Enginn veit hver Banksy er og hefur það orðið til að skapa honum goðsagnakennt yfirbragð; enginn veit hvar og hvenær verk eftir hann birtast. En, auk þess hefur hann gefið út eftirprentanir af þeim verkum sem seljast fyrir háar upphæðir. Svo eru til fjöldaframleidd plaköt. Á þessu tvennu er munur, sá að eftirprentanir eru gefnar út í takmörkuðu upplagi og stundum áritaðar af listamanninum. Plakötin ekki. Ekki er gott að glöggva sig á þessu og alls ekki í tilfelli huldumannsins Banksy. Hér má lesa sig betur til um það.

Þeirri spurningu hvort um plakat eða eftirprent hvað varðar mynd Jóns er að einhverju leyti ósvarað. Ekki vegna þess að menn vilji ekki trúa Jóni þegar hann segir að í raun sé um ódýrt plakat sé að ræða, og að það sé þá forvitnilegt út af fyrir sig að Banksy hafi haft fyrir því að sent Jóni plakat sem kaupa má á netinu fyrir nokkra dollara þá er Jón falaðist eftir Banksy-verki, heldur vegna þess að ekki gætir samræmis í því hvernig Jón hefur talað um verkið.

Myndin sem Jón Gnarr á er frábrugðin orgínalnum að því leyti til að blómvöndurinn er öðruvísi.
Í viðtali við The Rumpus í ágúst 2012 veitir blaðamaður risastóru Banksyverki á skrifstofu Jóns eftirtekt. Svart/hvítt eftirprent sem sýnir grímuklæddan mann vera að henda einhverju sem ætla mætti að væri sprengja en er í raun litríkur blómvöndur.

Einstakt verk eða ódýrt plakat?

Jón lýsir því að Banksy hafi gefið sér verkið, eftir að hann kom skilaboðum þess efnis á framfæri við listamanninn að hann vildi gjarnan eignast verk eftir hann. Jón segist hafa óskað eftir þessu tiltekna verki og borist svar, þar sem það skilyrði var fram sett að verkið myndi hanga á vegg borgarstjóraskrifstofunnar. Jón segist hafa fengið verkið sent nokkrum mánuðum síðar. Reyndar var upplagið á þrotum þannig að það þurfti að útbúa nýtt verk, teikna nýjan blómvönd og fáir hafa átta sig á því hversu einstakt það er.

„And then I got it sent months later. Actually, it was out of print, so we had to make a new—uh, draw a new flower bouquet—so if you compare this one to the original, they are different flowers… Very few people realize the uniqueness of this.“

Um helgina segir Jón hins vegar: „Þetta er ekki orginal verk eftir Banksy heldur eftirprentun. Hún er ekki einu sinni merkt listamanninum. Þetta er í rauninni bara plaggat. Ég borgaði ekkert fyrir það nema einhvern 50.000 kall fyrir að setja það á álplötu. Það er hægt að kaupa svona á netinu fyrir smápeninga.“ Og seinna í pistli sínum ítrekar hann þetta: „Þetta er bara plaggat sem ég fékk kurteysislegt leyfi frá listamanninum sem gerði það bara af því að ég ber svo mikla virðingu fyrir honum. En þetta er samt bara plaggat“.

Jón var ekki fáanlegur í viðtal við fréttastofu nú í morgun þegar eftir því var leitað. Sagðist myndi tjá sig á Facebook, ef hann teldi ástæðu til.


Tengdar fréttir

Banksy persónuleg gjöf og endaði heima í stofu

Breski listamaðurinn Banksy færði Jóni Gnarr, þáverandi borgarstjóra, mynd að gjöf með því skilyrði að hún yrði á skrifstofu borgarstjóra. Strangar reglur gilda um gjafir til kjörinna fulltrúa. Persónuleg gjöf segir Jón.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.