Innlent

Opna nýjan norðurljósavef og reikna strax með norðurljósum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Koma verður í ljós hvort norðurljós á borð við þessi sjáist um helgina.
Koma verður í ljós hvort norðurljós á borð við þessi sjáist um helgina. Fréttablaðið/Ernir

Norðurljósavefurinn Auroraforecast fór í loftið í gær. Á vefnum eru ítarlegar upplýsingar um allt sem viðkemur norðurljósum yfir Íslandi. Þar má finna bæði skýjahuluspá, spár um norðurljósavirkni og rauntímagögn frá gervitunglum sem vakta sólina, að því er segir í tilkynningu.

Að vefnum standa þau Aníta Hafdís Björnsdóttir, Róbert Bragason og Sævar Helgi Bragason.

Vefurinn er á ensku í byrjun en innan tíðar bætist við íslenska og vonandi fleiri tungumál. Hugsunin er að veita ferðalöngum á Íslandi bestu mögulegu upplýsingar um norðurljósin og hvar og hvenær líklegast er að sjá þau. Vefurinn mun aðeins vaxa með tíð og tíma og við bætast frekari upplýsingar um veður, bæði í geimnum og á jörðinni. 

Á vefnum er einnig blogg um það sem sjá má á himninum annað en norðurljós, því himinninn hefur upp á ansi margt fleira að bjóða segja þremenningarnir.

Um helgina telja þau góðar líkur á fallegum norðurljósum, þar sem sést í heiðan himinn. Á sólinni núna sé kórónugeil sem snýr að Jörðu en út um hana streymi hraðfleygur sólvindur sem sé líklegur til að valda segulstormum. 

Segulstormum fylgja gjarnan glæsileg norðurljós, eins og lesa má um hér.
 Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.