Innlent

Kokkar biðja Arnarlax afsökunar

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Kokkalandsliðið kynnir íslenska matargerð víða um heim.
Kokkalandsliðið kynnir íslenska matargerð víða um heim. Kokkalandsliðið

Klúbbur matreiðslumeistara og Arnarlax segjast hafa náð sáttum í máli sem reis eftir að undirritaður var samstarfssamningur milli kokkalandsliðsins og Arnarlax.

Málið var fyrirferðamikið í upphafi septembermánaðar. Á annan tug kokka dró sig úr kokkalandsliðinu eftir að matreiðslumeistaraklúbburinn, sem heldur utan um störf landsliðsins, undirritaði styrktarsamning við fiskeldisfélagið.

Kokkarnir sögðust ósáttir við að gerður væri samningur við „fyrirtæki sem framleiði lax í opnu sjókvíaeldi“. Slíkir framleiðsluhættir séu ógn við villta lax- og silungastofna og hafi margvísleg neikvæð umhverfisáhrif á lífríki Íslands.

Klúbbur matreiðslumeistara sendi síðan frá sér yfirlýsingu þar sem fram kom að búið væri að rifta samningnum við Arnarlax. Lögmaður klúbbsins tjáði Vísi að málið snerist um greiðslur sem áttu að berast 1. september en hefðu ekki borist.

Sjá einnig: Segir kokkana ekki hafa vitað að semja ætti við Arnarlax

Í tilkynningu sem barst frá Klúbbi matreiðslumeistara nú síðdegis er greint frá félagsfundi klúbbsins sem haldinn var á dögunum. Þar á fyrrnefnd atburðarás að hafa verið rædd „og var það vilji fundarmanna að ná sáttum við Arnarlax og ganga báðir aðilar nú sáttir frá borði,“ eins og það er orðað í tilkynningunni.

Klúbburinn segist jafnframt harma það að Arnarlax hafi orðið fyrir „ósanngjarnri gagnrýni“ vegna málsins. „Eldislax er notaður alls staðar um allan heim og er fyrsta flokks vara og sem dæmi er sambærileg vara notuð á heimsmeistaramótinu í matreiðslu í Luxemburg og víðar,“ segir í tilkynningunni.

„Þá tekur Klúbbur matreiðslumeistara það fram að fullyrðingar klúbbsins um að greiðslur frá Arnarlaxi hafi ekki borist á réttum tíma voru á misskilningi byggðar og er Arnarlax beðinn velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta kann að hafa valdið.“

Ekki fylgir sögunni hvort aftur verði gengið til samninga milli hópanna tveggja.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.