Arnór skoraði og Hörður fékk rautt í tapi gegn Roma

Anton Ingi Leifsson skrifar
Arnór fagnar marki sínu í kvöld.
Arnór fagnar marki sínu í kvöld. vísir/afp
Íslendingarnir voru áberandi er CSKA Moskva tapaði 2-1 fyrir Roma í G-riðli Meistaradeildarinnar en leikið var í Moskvu í kvöld.

Þeir Hörður Björgvin Magnússon og Arnór Sigurðsson voru báðir í byrjunarliði CSKA en Roma komst yfir á fjórðu mínútu með skallamarki Konstantinos Manolas.

Þannig stóðu leikar í hálfleik og allt þangað til á 51. mínútu er Skagamaðurinn Arnór Sigurðsson jafnaði metin. Hann fékk boltann eftir skyndisókn, tók laglega snertingu og kláraði færið afar vel.

Arnór er tólfti Íslendingurinn til að spila í Meistaradeildinni og sá þriðji til þess að skora mark en hinir eru Alfreð Finnbogason og Eirður Smári Guðjohnsen.

Fimm mínútum eftir mark Arnórs fékk Hörður Björgvin sitt annað gula spjald eftir tæklingu á Justin Kluivert og tyrkneski dómari leiksins Cuneyt Cakir sendi Hörð í sturtu.

Á 59. mínútu skoraði Roma svo sigurmarkið er Lorenzo Pellegrini skoraði eftir að boltinn hrökk af Edin Dzeko. Við nánari athugun kom í ljós að Lorenzo var kolrangstæður. 2-1 sigur Roma staðreynd.

Roma er því með níu stig í riðlinum, Real er með sex, CSKA fjögur og Viktoria Plzen eitt en Real og Viktoria mætast síðar í kvöld.

Valencia vann auðveldan sigur á Young Boys, 3-1, á Spáni en leikurinn var hluti af H-riðlinum.

Santi Mina kom Valencia yfir á fjórtándu mínútu en Roger Assale jafnaði fyrir gestina á 37. mínútu. Santi skoraði annað mark sitt fyrir hlé og Carlos Soler bætti svo við þriðja markinu í síðari hálfleik.

Juventus er á toppi H-riðils með níu stig, Valencia er með fimm, Man. Utd fjögur og Young Boys eitt en síðar í kvöld mætast Juventus og Man. Utd í Tórínó.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira