Fótbolti

Knattspyrnusamband Evrópu fær 28 milljarða frá kínversku fyrirtæki

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aleksander Ceferin og Jack Ma.
Aleksander Ceferin og Jack Ma. Vísir/Getty
Aleksander Ceferin, forseti Knattspyrnusambands Evrópu, UEFA, er nú staddur í Kína og ekki af ástæðulausu. UEFA tilkynnti í dag um risasamning sinn við kínverska fyrirtækið Alipay.

Samningurinn við Alipay er til átta ára og kínverska fyrirtækið verður aðalstyrktaraðili UEFA í tengslum við næstu tvær úrslitakeppni EM (2020 og 2024) sem og úrslitamót Þjóðadeildarinnar.





Knattspyrnusamband Evrópu mun fá um 200 milljónir evra, 28 milljarða íslenskra króna,  fyrir þennan risasamning samkvæmt frétt AP Fréttastofunnar. Þessir peningar ættu að skila sér að einhverju leiti til knattspyrnusambanda innan UEFA og eru því góðar fréttir fyrir Knattspyrnusamband Íslands.

Jack Ma stofnaði Alipay fyrir fjórtán árum en hann er einn ríkasti maður Kína og var einnig allt í öllu hjá risafyrirtækinu Alibaba.

Alibaba styrkir einmitt heimsmeistarakeppni félagsliða hjá FIFA og það er því augljóst að Jack Ma er mikill fótboltaáhugamaður og sér knattspyrnuna sem góða leið til að stækka fyrirtæki sín utan Kína.





Aleksander Ceferin og Jack Ma tókust í hendur í Shanghæ í dag þar sem samningurinn var kynntur.

Úrslitakeppni Evrópumótsins 2020 fer fram víðsvegar um Evrópu eða í tólf borgum í tólf löndum frá 12. júní til 12. júlí 2020. Fjórum áður síðar fer keppnin síðan fram í Þýskalandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×