Erlent

Ætlar að byggja upp kjarnorkuvopnabúr Bandaríkjanna þar til aðrir „ná áttum“

Samúel Karl Ólason skrifar
Trump ræddi við blaðamenn fyrir utan Hvíta húsið.
Trump ræddi við blaðamenn fyrir utan Hvíta húsið. AP/Pablo Martinez Monsivais
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segir að Bandaríkin muni byggja upp kjarnorkuvopnabúr sitt. Það verði gert til að beita Rússland og Kína þrýstingi.

Þegar Trump ræddi við blaðamenn í kvöld sagðist hann viss um að Rússar hefðu brotið gegn kjarnorkusamkomulagi ríkjanna og anda þess. Því er ætlað að útrýma meðaldrægum elflaugum búnum kjarnaoddum og var undirritað af Ronald Reagan, þáverandi Bandaríkjaforseta, og Mikhail Gorbachev árið 1987.

Forsetinn hefur sagt að ríkisstjórn hans ætli að rifta samkomulaginu.

Þá sagði hann að Bandaríkin myndu byggja upp vopnabúr sitt og þar sem Bandaríkin ættu mun meiri peninga en allir aðrir gætu þeir haldið uppbyggingunni áfram „þar til fólk nær áttum,“ án þess að fara nánar út í hvað hann ætti við. Kínverjar eru ekki aðilar að samkomulaginu og geta því þróað meðaldrægar eldflaugar að vild.



Hann sagði að uppbyggingunni ætlað að setja þrýsting á Kína, Rússland og alla aðra sem vildu „spila þann leik,“ eins og forsetinn orðaði það. Áður hafði hann sagt að hann vildi að bæði Rússland og Kína myndu skrifa undir samning um að banna þróun og varðveislu slíkra eldflauga.



Segjast vilja bjarga samkomulaginu

Rússar hafa varað við því að þeir muni sömuleiðis byggja upp sín vopnabúr. Þeir segjast þar að auki vera tilbúnir til frekari viðræðna til að halda samkomulaginu virku. John Bolton, þjóðaröryggisráðgjafi Trump, er nú staddur í Moskvu þar sem hann á í viðræðum við rússneska embættismenn um samkomulagið.

Bandaríkin og Atlantshafsbandalagið segja Rússa hafa þróað nýjar meðaldrægar eldflaugar sem geri þeim kleift að gera kjarnorkuárásir á Evrópu með mjög skömmum fyrirvara. Eldflaugarnar sem kallast Novator 9M729 eða SSC-8, brjóti gegn samkomulaginu og eru forsvarsmenn Atlantshafsbandalagsins sammála.


Tengdar fréttir

Fyrrum leiðtogi Sovétríkjanna gagnrýnir ákvörðun Trumps

Fyrrum forseti og síðasti leiðtogi hinna sálugu Sovétríkja, Mikhail Gorbachev, segir að áform Donalds Trump Bandaríkjaforseta um að rifta kjarnorkusamkomulagi milli Rússlands og Bandaríkjamanna séu einungis til þess fallin að draga úr þeim árangri sem náðst hefur í kjarnorkuafvopnun heimsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×