Erlent

Margir andstæðingar forsetans fengu sprengjur í pósti

Samúel Karl Ólason skrifar
Mikill viðbúnaður var í New York í dag.
Mikill viðbúnaður var í New York í dag. AP/Kevin Hagen
Fjöldi sprengja og grunsamlegra pakkninga hafa fundist í Bandaríkjunum í dag. Sprengjur voru sendar til heimilis hjónanna Hillary og Bill Clinton, heimilis Barack og Michelle Obama og höfuðstöðva CNN í New York í dag. Þar að auki barst sprengja og hvítt duft til þingkonunnar Wasserman Schultz í Flórída og grunsamlegur pakki barst til Andrew Cuomo, ríkisstjóra New York. Það reyndist þó ékki vera sprengja.

Lögreglan í New York segir að um frumstæðar pípusprengjur sé að ræða. Engan sakaði vegna sendinganna. Svo virðist sem engin sprenging hafi orðið. Lífvarðarsveit forsetaembættisins uppgötvaði sprengjurnar til Clinton og Obama og bárust þær ekki til heimila þeirra.

Erica Orden, fréttakona CNN, birti mynd af sprengjunni sem barst til fréttastofunnar í New York.

Talið er að sendingarnar tengist allar sprengjunni sem barst til George Soros í gær. Þá var pakkinn sem sendur var til CNN stílaður á John Brennan, fyrrverandi yfirmann CIA, sem er harður gagnrýnandi Donald Trump, forseta Bandaríkjanna.

Allir þeir sem vitað er að hafa fengið bréfasprengjur sendar hafa verið harðlega gagnrýnd af Trump og íhaldssömum miðlum Bandaríkjanna. Cuomo sagði blaðamönnum í dag að það kæmi honum ekki á óvart ef fleiri sprengjur munu finnast.

Hvíta húsið hefur fordæmt sendingarnar og sagði Mike Pence, varaforseti, að árásir sem þessar ættu sér ekki sess í Bandaríkjunum. Trump deildi tísti Pence og sagðist alfarið sammála.

Bill de Blasio, borgarstjóri New York, sagði í dag að augljóst væri að um hryðjuverk væri að ræða. Árásirnar hefðu beinst gegn leiðtogum landsins og frjálsum fjölmiðlum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×