Enski boltinn

Pochettino segist aldrei hafa liðið verr

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Argentínumaðurinn er ekki sáttur við forráðamenn Tottenham
Argentínumaðurinn er ekki sáttur við forráðamenn Tottenham vísir/getty
Mauricio Pochettino segir að sér hafi aldrei liðið verr í starfi knattspyrnustjóra Tottenham en þessa dagana.

Tottenham tekur á móti Manchester City í stórleik umferðarinnar í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Leikurinn fer hins vegar ekki fram á nýjum og glæsilegum leikvangi Tottenham því enn eru margar vikur í að hann verði tilbúinn.

Þess í stað fer leikurinn fram á Wembley á velli sem þurfti í gær að þola mikið áreiti þegar NFL leikur fór fram á vellinum.

Pochettino segir forráðamenn Tottenham eyða of mikilli orku og peningum í að klára völlinn og frammistaða liðsins hafi fallið í goggunarröðinni.

Pochettino fékk ekki að kaupa einn einasta leikmann í sumar, eini stjórinn í deildinni sem fékk ekkert nýtt blóð inn fyrir komandi tímabil. Þrátt fyrir það hefur Tottenham byrjað betur í deildinni heldur en síðustu fimm tímabil.

„Á þessu tímabili hefur mér liðið verr en nokkru sinni áður hjá Tottenham. Samt er byrjun okkar sú besta. Þetta er skrítið,“ sagði Pochettino við The Times.

„Ég er vonsvikinn yfir því að við erum enn að bíða eftir nýja vellinum þegar hann átti að vera tilbúinn í upphafi tímabilins. Það gerðist mikið í sumar sem veldur því að ég er ekki í besta skapinu.“



„Félagið er ekki einbeitt á að vinna leiki og titla. Við, liðið, erum einbeittir á að vinna en félagið þarf að gera það líka.“

Með sigri í kvöld fer Tottenham upp fyrir Englandsmeistarana og í þriðja sæti deildarinnar. Leikur Tottenham og Manchester City hefst klukkan 20:00 og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×