Erlent

Fyrstu formlegu viðræður Bandaríkjanna og Talibana

Samúel Karl Ólason skrifar
Zalmay Khalilzad sérstakur erindreki Bandaríkjanna í Afganistan.
Zalmay Khalilzad sérstakur erindreki Bandaríkjanna í Afganistan. AP/Mary Altaffer
Nýr erindreki Bandaríkjanna fundaði í fyrsta sinn með leiðtogum Talibana í Afganistan í gær. Talibanar segja að viðræðurnar muni halda áfram en þetta eru aðrar  formlegu viðræður fylkinganna sem ætlað er að binda enda á átökin í landinu sem staðið hafa yfir í sautján ár. Viðræðurnar fór fram í Katar í gær.

Erindrekinn, Zalmay Khalilzad, fæddist í Afganistan en er bandarískur ríkisborgari og var skipaður af Donald Trump fyrir um mánuði síðan. Hann og sjö aðrir Bandaríkjamenn funduðu með nokkrum leiðtogum Talibana og segja Talibanar að Khalilzad hafi rætt um að báðar fylkingar samþykktu sex mánaða vopnahlé. Talibanar fóru fram á að yfirvöld Afganistan slepptu vígamönnum þeirra úr haldi og að allir erlendir hermenn yfirgæfu landið.

Ekki var komist að samkomulagi á fundinum en heimildarmaður Reuters meðal Talibana segir að til standi að funda aftur og finna lausn á átökunum.

Áður en Khalilzad fundaði með Talibönum ferðaðist hann til Pakistan, Sameinuðu arabísku furstadæmanna og Sádi-Arabíu, þar sem hann ræddi við embættismenn um stöðuna í Afganistan. Þá ræddi hann við forseta Afganistan í dag og sagði honum frá fundinum í gær. Fyrstu formlegu viðræður Bandaríkjanna og Talibana fóru fram í sumar.

Versnandi átök í landinu að undanförnu hafa leitt til þess að dregið hefur verið í efa að Bandaríkin og ríkisstjórn Afganistan geti í raun sigrað Talibana. Minnst átta þúsund almennir borgara hafa dáið eða særst í árásum á fyrstu níu mánuðum ársins.


Tengdar fréttir

Mikið mannfall í bardögum í Afganistan

Varnarmálaráðuneyti Afganistan segir minnst hundrað lögregluþjóna og hermenn hafa fallið í bardögum við Talibana í hinni mikilvægu borg Ghazni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×