Erlent

Kaþólska kirkjan tekur salvadorskan biskup í dýrlingatölu

Kjartan Kjartansson skrifar
Salvadorskur pílagrímur í bol með mynd af Oscar Romero á Péturtorgi í Páfagarði í morgun. Þúsundir Salvadora ferðuðust þangað tl að fylgja með því þegar Romero var tekinn í tölu dýrlinga.
Salvadorskur pílagrímur í bol með mynd af Oscar Romero á Péturtorgi í Páfagarði í morgun. Þúsundir Salvadora ferðuðust þangað tl að fylgja með því þegar Romero var tekinn í tölu dýrlinga. Vísir/EPA
Frans páfi lýsti því yfir í morgun að Oscar Romero, erkibiskup El Salvadors, sem var myrtur af dauðasveitum árið 1980, hefði verið tekinn í dýrlingatölu kaþólsku kirkjunnar. Auk hans var Páll sjötti páfi og fimm aðrir lýstir dýrlingar.

Um fimm þúsund Salvadorar höfðu ferðast til Rómar til að vera viðstaddir yfirlýsingu páfa. AP-fréttastofan segir að tugir þúsunda Salvadora hafi jafnframt vakað langt fram á nótt til að fylgjast með athöfninni í sjónvarpi og á risaskjám fyrir utan dómkirkjunar í San Salvador þar sem lík Romero liggur í grafhýsi.

Romero var erkibiskup í San Salvador. Hann storkaði herforingjastjórn El Salvadors sem Bandaríkjastjórn studdi og talaði fyrir mannréttindum og réttindum fátæks fólks við upphaf blóðugs borgarastríðs sem geisaði í landinu frá 1980 til 1992.

Í prédikunum sínum deildi Romero hart á herforingjastjórnina og vinstrisinnaða uppreisnarmenn og lýsti samstöðu með snauðum íbúum landsins. Varð hann að hetju margra í Rómönsku Ameríku fyrir vikið.

Fólk vottar Romero virðingu sína viku eftir að hann var myrtur í mars árið 1980. Talið er að 75.000 manns hafi fallið í borgarastríðinu sem geisaði í tólf ár eftir dauða erkibiskupsins.
Hægrisinnaðar dauðasveitir hliðhollar herforingjastjórninni skutu Romero til bana þegar hann þjónaði við messu í sjúkrahússkapellu árið 1980.

Við athöfnina í morgun var Frans páfi með blóðugt belti Romero frá því að hann var skotinn niður og staf, kaleik og messuklæði Páls sjötta páfa.

Kaþólska kirkjan tekur menn í dýrlingatölu meðal annars á grundvelli kraftaverka sem eiga að hafa orðið. Í tilfelli Romero er vísað til þess að kona sem var nálægt dauða í fæðingu hafi lifað af eftir að eiginmaður hennar ákallaði og bað til Romero, að því er segir í frétt Reuters.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.