Erlent

Haddad sakar Bolsonaro um kosningasvindl

Atli Ísleifsson skrifar
Jair Bolsonaro hefur barist fyrir að slakað verði á lögum og reglum sem snúa að skotvopaeign í landinu.
Jair Bolsonaro hefur barist fyrir að slakað verði á lögum og reglum sem snúa að skotvopaeign í landinu. AP/Leo Correa
Brasilíski forsetaframbjóðandinn Fernando Haddad hefur sakað andstæðing sinn, hægriöfgamanninn Jair Bolsonaro, um að dreifa lygum um sig á samfélagsmiðlum. Síðari umferð brasilísku fer fram þann 28. október þar sem kosið verður milli Haddad og Bolsonaro.

Bosonaro, þykir líklegastur til að sigra kosningarnar, neitar ásökunum Haddad.

Haddad segir að Bolsonaro og hans lið hafi greitt félagi fyrir að dreifa ósannindum um Haddad til að koma á hann höggi. Segir Haddad þetta vera skýrt brot á kosningalögum landsins. „Andstæðingurinn hefur gerst brotlegur við lög til að ná forskoti,“ segir Haddad, sem er fulltrúi Verkamannaflokks landsins.

Ósannindi á WhatsApp

Blaðið Folha de São Paulo greindi frá því að félög hefðu fengið greidd um 340 milljónir króna fyrir að dreifa skilaboðum um Haddad á WhatsApp.

Lögmaður Bolsonaro hafnar ásökununum og segir engar sannanir fyrir því að skjólstæðingur sinn eða kosningalið hans standi að baki þessu,

Kosningabaráttan hefur verið hörð og í síðustu viku sakaði Haddad Bolsonaro um að hvetja til ofbeldis.

Skoðanakannanir benda til að Bolsonaro muni fá um 58 prósent atkvæða en Haddad um 42 prósent. Í fyrri umferð kosninganna hlaut Bolsonaro 46 prósent atkvæða en Haddad 29 prósent. Þar sem enginn fékk hreinan meirihluta í fyrri umferð verður kosið milli tveggja efstu í annarri umferð.

Fernando Haddad er forsetaframbjóðandi Verkamannaflokksins.AP/Andre Penner
Vill taka hart á glæpum

Bolsonaro hefur barist fyrir að slakað verði á lögum og reglum sem snúa að skotvopaeign í landinu. Þá kveðst hann líta á pyndingar sem lögmætt tæki í baráttunni gegn glæpum. Hann vill ennfremur taka upp dauðarefsingar í landinu á ný.

Andstæðingar Bolsonaro hafa sakað hann um kynþáttahatur og hatur í garð samkynhneigðra.

Fyrrverandi borgarstjóri

Haddad er fyrrverandi borgarstjóri São Paulo og nýtur stuðnings forsetans fyrrverandi Luiz Inácio Lula da Silva. Lula lét af embætti árið 2011 og naut þá mikilla vinsælda. Hann var dæmdur til fangelsisvistar fyrr á árinu eftir að hafa verið sakfelldur fyrir mútuþægni. Hann neitaði sök og segir málið sprottið undan rifjum pólitískra andstæðinga til að koma í veg fyrir að hann gæti boðið sig fram að nýju.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×