Innlent

Dittó og Lella nú íslensk nöfn

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Meðal samþykktra nafna voru kvenmannsnöfnin Franzisca og Zíta.
Meðal samþykktra nafna voru kvenmannsnöfnin Franzisca og Zíta. vísir/getty
Átján nöfn bættust á mannanafnaskrá í síðustu tveimur mánuðum. Sex nöfnum var hafnað.

Meðal samþykktra nafna voru kvenmannsnöfnin Franzisca og Zíta en þau töldust hafa hefðast í málið, þó þau uppfylltu ekki öll skilyrði mannanafnalaga, þar sem þau höfðu áður verið notuð hér á landi þó ekki væru þess dæmi nú. Millinöfnin Maí, Ká, Lár og Svæk voru samþykkt sem og karlmannsnöfnin Dittó, Berti, Ram, Ernest, Friðríkur og Diego og kvenmannsnöfnin Helgey, Sumarlín, Sál og Lella.

Millinafnið Eykam þótti ekki gott og gilt en það fékk hins vegar grænt ljós sem eiginnafn karla. Millinafninu Bell var hafnað þar sem það þótti ekki í samræmi við íslenska málvenju. Hið sama gildir um stúlkunafnið Tindur en því var hafnað þar sem það er nú þegar skráð sem karlmannsnafn. Aftur á móti var samþykkt að hleypa kvenmannsnafninu Júlí í gegn þótt það sé nú þegar leyft sem karlmannsnafn.

Karlmannsnafninu Lucas var síðan hafnað þar sem elsti nafnberi þess hér á landi er fæddur 2002. Því uppfylli það ekki skilyrði þess að hafa hefðast inn í málið. Sömu sögu er að segja um nafnið Mariko en fyrir eru leyfð nöfnin Maríkó og Marikó. 
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.