Tilkynning um eld í Laugalækjarskóla barst Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins á öðrum tímanum í nótt og var allt tiltækt lið sent á vettvang auk aukavaktar sem boðuð var út.
Slökkvistarf tók um fjórar klukkustundir en eldurinn logaði í klæðningu utan á byggingu skólans og þurftu slökkviliðsmenn að rífa hana frá til þess að slökkva eldinn.
Aðstoðarskólastjóri segir það hafa verið óskemmtilegt að mæta til vinnu í morgun.

Það þykir mildi að eldurinn hafi ekki borist inn í skólann en bæði hurð og gluggar eru nærri þar sem eldurinn logaði.
„Eldurinn fór ekki inn en reykur fór bara hérna inn í bókasafnið en þetta hefði getað farið verr,“ segir Sólveig.
Samkvæmt heimildum fréttastofu sést á upptökum öryggismyndavéla skólans í nótt að þrír einstaklingar komu að því að bera eld að skólanum og styðst lögreglan við þær upptökur í rannsókn sinni á tildrögum eldsvoðans.
Fulltrúar frá brunaeftirliti Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins skoðuðu aðstæður í dag og kanna meðal annars hvort klæðning utan á skólanum standist reglugerð.

Hann segir að ef byggingarefni hefði verið samkvæmt reglugerð hefði eldurinn ekki breiðst út með þessum hætti.
„Ef að þetta er rétt gert og efnin eru óbrennanleg eða tregbrennanleg, þá nær sér aldrei upp sjálfberandi eldur,“ segir Bjarni.