Innlent

Formenn stjórnarflokkanna funduðu með fulltrúum sveitarfélaganna um fiskeldismál

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra. Vísir/Vilhelm

Formenn stjórnarflokka ríkisstjórnarinnar funduðu í gær með bæjarstjóra Vesturbyggðar og oddvita Tálknafjarðarbæjar. Tilefni fundarins var að ræða stöðuna sem nú er uppi hjá fiskeldisfyrirtækjum í sveitarfélögunum tveimur en úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála ógilti á dögunum rekstrarleyfi fyrirtækjanna til fiskeldis á Vestfjörðum. Sveitarstjórnarmenn sveitarfélaganna sátu einnig fundinn.

Þetta kemur fram í Facebook-færslu Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra. Þá kom fram í færslunni að fundarmenn hafi verið upplýstir um að bæði sjávarútvegsráðherra og umhverfisráðherra hafi verið með til skoðunar hvaða leiðir væru færar til þess að gæta meðalhófs í málum fiskeldisfyrirtækjanna.

Í færslunni kom fram að það væri gert „þannig að fyrirtæki geti almennt fengið sanngjarnan frest til að bæta úr þeim annmörkum sem koma fram í kæruferli og faglega sé staðið að öllum málum.“ Þá sagðist Katrín vona að hægt verði að finna farsæla lausn á málinu sem allra fyrst.

Formenn allra stjórnarflokka hafa tjáð sig um málið

Fyrr í dag birti Sigurður Ingi Jóhannesson, sveitarstjórna- og samgöngumálaráðherra, Facebook-færslu þar sem hann sagði viðmælanda RÚV í frétt um fiskeldi á Vestfjörðum í gær hafi farið með staðlausa stafi um atvinnugreinina. Þá kallaði hann eftir því að þeir sem um málin fjalla fari ekki með rangt mál.
Þá birti Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra í gær færslu á Facebook-síðu sinni þar sem hann sagði óvissuástandið sem nú blasir við á Vestfjörðum vera óviðunandi og að bregðast þyrfti hratt við og svara því með hvaða hætti þeim sem í hlut eiga verði tryggður réttur til að láta reyna á stöðu sína gagnvart stjórnvöldum. Í því efni séu ekki eingöngu hagsmunir einstaka rekstraraðila undir heldur alls samfélagsins fyrir vestan.
Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.