Erlent

Örlög Löfven ráðast á morgun

Atli Ísleifsson skrifar
Stefan Löfven hefur gegnt embætti forsætisráðherra Svíþjóðar frá árinu 2014.
Stefan Löfven hefur gegnt embætti forsætisráðherra Svíþjóðar frá árinu 2014. Vísir/EPA
Sænska þingið mun greiða atkvæði um stöðu forsætisráðherrans á morgun. Þetta þýðir að Stefan Löfven, leiðtogi Jafnaðarmanna, muni að öllum líkindum láta af störfum sem forsætisráðherra landsins, annað hvort að atkvæðagreiðslunni lokinni eða þá að hann muni segja af sér fyrir.

Anders Ygeman, þingflokksformaður Jafnaðarmanna, staðfesti í hádeginu í samtali við sænska fjölmiðla að atkvæðagreiðslan muni fara fram á morgun. Er hún fyrirhuguð klukkan 9:30 að staðartíma, eða 7:30 að íslenskum tíma.

Sænska þingið kom saman í fyrsta sinn í morgun frá kosningunum 9. september. Þar var Andreas Norlén kjörinn nýr forseti þingsins. Norlén er þingmaður hægriflokksins Moderaterna og var þingforsetaefni bandalags borgaralegu flokkanna. Þingmenn Svíþjóðardemókrata greiddu einnig atkvæði með Norlén.

Valdamikið embætti

Embætti þingforseta er valdamikið í Svíþjóð, en auk þess að stýra dagskrá þingsins tilnefnir hann forsætisráðherra sem þingið greiðir svo atkvæði um. Þingforsetanum er ætlað að vera hafinn yfir flokkapólitík, en stóru flokkarnir líta á það sem kost að hafa sinn mann í stóli þingforseta við stjórnarmyndun.

Snúin staða er uppi í sænskum stjórnmálum eftir kosningarnar þar sem hvorug hefðbundnu blokkanna náði meirihluta. Rauðgræna blokkinn tryggði sér 144 þingsæti, bandalag borgaralegu flokkanna 143 og Svíþjóðardemókratar 62.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.