Innlent

Sárvantar fagfólk á Landspítala

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri flæðisviðs Landspítala.
Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri flæðisviðs Landspítala.

Fjörutíu sjúkrarúm á Landspítalanum standa ónotuð vegna manneklu og ekki var hægt að leggja inn hátt í 40 sjúklinga í morgun. Um tvö hundruð manns bíða eftir að komast inn á hjúkrunarheimili og farið er að bera á ákveðnu vonleysi hjá starfsfólki vegna vandans, að sögn framkvæmdastjóra flæðissviðs spítalans.

Landspítalinn sendi frá sér tilkynningu fyrir helgi þar sem kom fram að forgangsraðað væri á bráðamóttöku vegna álags. Í morgun var ekki hægt að taka á móti 38 einstaklingum sem þurftu innlögn á Landsspítalann. Þá eru 40 rúm eru lokuð vegna skorts á hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum.

Loks er ekki hægt að útskrifa stóran hóp fólks vegna skorts á hjúkrunarheimilum að sögn framkvæmdastjóra flæðissviðs.

„131 einstaklingur sem annars vegar er á biðdeild, sem er þá Vífilsstaðir eða biðdeildin á Akranesi. Síðan eru 66 sjúklingar sem bíða á bráðadeildunum eftir að komast inn á hjúkrunarheimili. Þetta er hluti af vandanum,“ segir Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri flæðisviðs Landspítala.

„Annað er líka mönnun. Það hefur komið ítrekað fram í fjölmiðlum. Það er skortur á fagfólki. Sérstaklega hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum. Það er mikil vöntun á þessum stéttum og það gefur í ef eitthvað er.“

Haustið hefur verið óvenju erfitt á Landspítalanum og segir Guðlaug margar ástæður fyrir því. Þjóðin sé að eldast og það séu of fáir hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar að útskrifast. Allt samfélagið þurfi að taka á þessum vanda.

Guðlaug segir þetta vanda spítalans í heild.

„Ég veit ekki til þess að nein deild sé undanskilin. Við erum öll að takast á við þetta verkefni.“

Hún segir gríðarlegt álag á starfsfólk.

„Þetta hefur þau áhrif að fólk, ég myndi ekki segja örmagnast, en það verður svona ákveðið vonleysi.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.