Fótbolti

Líkti tapinu á móti Sviss við stórtap Brasilíumanna á HM 2014

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
David Luiz liggur í grasinu eftir 7-1 tap á móti Þýskalandi í undanúrslitum á HM 2014.
David Luiz liggur í grasinu eftir 7-1 tap á móti Þýskalandi í undanúrslitum á HM 2014. Vísir/Getty

Erik Hamrén, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í fótbolta, segir að andrúmsloftið hafi verið mjög þungt í íslenska hópnum eftir stórtapið á móti Sviss um helgina.

Sviss vann leikinn 6-0 en leikur íslenska liðsins hrundi algjörlega í seinni hálfleiknum.

„Andrúmsloftið hefur ekki verið gott. Sem betur fer. Það væri skrítið ef það væri gott andrúmsloft og þá væri ég stressaður,“ sagði Erik Hamrén á blaðamannafundi í dag.

„Þú hefur 24 tíma til að fagna ef þú vinnur eða syrgja saman ef þér gengur ekki vel. Stundum gengur þér illa en ert samt ánægður með frammistöðuna. Í síðasta leik vorum við ekki ánægðir með frammistöðuna. Við misstum alla orku og liðsheild eftir að staðan varð 3-0,“ sagði Hamrén.

„En við höfum skilið þennan leik eftir úti og einbeitum okkur að þeim næsta. Þetta er sárt en við þurfum að halda áfram,“ sagði Hamrén.

„Leikmennirnir eiga að geta horft í spegilinn eða á hver annan og hugsað að þeir hafi gefið allt sem þeir gátu í leikinn og séu ánægðir með sína frammistöðu. Það er það sem ég vil á morgun,“ sagði Hamrén.

Hamrén sagðist hafa rætt við alla lykilmenn íslenska liðsins undir fjögur augu til að fara yfir leikinn á móti Sviss.

„Menn verða að tala saman eftir svona leik,“ sagði Erik Hamrén.

Hamrén líkti tapinu við tap Brasilíumanna í undanúrslitum á HM í Brasilíu 2014. Brasilíumenn töpuðu þeim leik 7-1 á móti Þýskalandi en Þjóðverjarnir komust í 5-0 á fyrstu 29 mínútum leiksins.

„Ég get borið þetta saman við leik Brasilíumanna á móti Þjóðverjum á HM 2014 þó að það sé vissulega mikill munur á þessum tveimur leikjum. Þeir voru í sjokki og eftir að við lentum 3-0 undir þá var allt íslenska liðið í sjokki. Við unnum ekki saman eins og við þurftum að gera. Þegar það gerist þá lenda öll lið í vandræðum,“ sagði Hamrén.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.