Fótbolti

Toby Alderweireld: Tap Íslands gegn Sviss ekki gott fyrir okkur

Anton Ingi Leifsson skrifar

Toby Alderweireld, varnarmaður Tottenham og belgíska landsliðsins, segir að stórt tap Íslands í Sviss hafi ekki verið gott fyrir Belgíu.

Ísland og Belgía mætast í Þjóðadeildinni á Laugardalsvelli annað kvöld og þar á íslenska liðið möguleika á að bæta upp fyrir stórtapið gegn Sviss.

„Við vitum að þetta verður afar erfiður leikur. Ísland á heimavelli er erfitt lið að spila gegn og þeir hafa náð góðum úrslitum hér áður,” sagði Toby í samtali við Stöð 2 fyrir æfingu liðsins í kvöld.

„Auðvitað erum við með mikið sjálfstraust en við verðum að spila afar vel ef við viljum ná í þrjú stig hérna á morgun.”

En eru leikmenn Belgíu saddir eða með full mikið sjálfstraust eftir frábært HM í sumar þar sem liðið endaði í þriðja sætinu?

„Við reynum að komast framhjá því en auðvitað eru allir ánægðir og margir mjög sáttir en nú er ný keppni og í síðasta leik sýndum við að við erum klárir.”

„Þetta er nýtt upphaf og ný leið til þess að sýna okkur sem leikmenn og sem lið. Við erum mjög hungraðir í að ná í þrjú stig á morgun.”

Skellur Íslands gegn Sviss á laugardaginn og segir Toby að þetta sé ekki gott fyrir Belgíu því íslenska liðið mæti af fullum krafti á morgun.

„Ég held að þetta sé ekki gott fyrir okkur. Þeir vilja sýna eitthvað annað á morgun. Þeir eru mun betri en þeir sýndu gegn Sviss.”

„Það er mjög erfitt að spila gegn þeim og þeir eru með mikið af hæfileikum í liðinu. Við erum ekki blindaðir af úrslitunum á laugardaginn. Þeir eru með marga góða leikmenn.”Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.