Íslenski boltinn

Skagamenn nálgast Pepsi-deildina eftir sigur á Magna

Bjarni Þórarinn Hallfreðsson skrifar
Jóhannes Karl Guðjónsson er þjálfari Skagamanna
Jóhannes Karl Guðjónsson er þjálfari Skagamanna Vísir\Stefán
ÍA gerði sér góða ferð norður á Grenivík og sigraði Magna, 3-2 í Inkasso-deildinni í dag.



Leikurinn byrjaði af miklum krafti. Skagamenn komust yfir snemma leiks er Stefán Teitur Þórðarson skoraði.



Sex mínútum síðar jafnaði Lars Óli Jessen leikinn eftir stoðsendingu Kristins Þórs Rósbergssonar.



Jafnteflið varði ekki lengi því ÍA var komið aftur yfir strax í næstu sókn. Þá átti Ólafur Valur Valdimarsson stoðsendingu á Jeppe Hansen.



Ekki voru fleiri mörk skoruð í fyrri hálfleik.



Líkt og fyrri hálfleikurinn, þá byrjaði sá síðari einnig af miklum krafti. Stefán Teitur skoraði annað mark sitt, og þriðja mark ÍA strax á 46. mínútu.



Magnamenn náðu hins vegar að minnka muninn aðeins tveimur mínútum síðar. Þá skoraði Kristinn Þór eftir stoðsendingu Lars.



Lengra komust Magnamenn ekki, og urðu lokatölur 3-2.



Með sigrinum komst ÍA aftur á toppinn en Skagamenn nálgast Pepsi-deildina óðfluga. Sigur í næsta leik tryggir ÍA sæti í Pepsi-deildinni að ári.



Magni er hins vegar á hinum enda deildarinnar og eru á botni deildarinnar, fjórum stigum frá öruggu sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×