Enski boltinn

Messan: Hverjir eiga að vera miðverðir Manchester United liðsins?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Victor Lindelöf og Chris Smalling í leik á móti Chelsea.
Victor Lindelöf og Chris Smalling í leik á móti Chelsea. Vísir/Getty
Mikil umræða hefur verið um vandamál Manchester United í miðri vörninni ekki síst eftir að liðið fékk á sig sex mörk í tveimur leikjum.

Messan velti því fyrir sér í gær hvaða miðverðir eigi skilið byrjunarliðssæti í Manchester United liðinu.

Til greina komu þeir Victor Lindelöf, Eric Bailly, Phil Jones og Chris Smalling.

Ríkharð Guðnason, umsjónarmaður Messunnar spurðu gesti sína hreint út hverjir ættu að vera byrjunarliðsmiðverðir liðsins.

Hjörvar Hafliðason var fljótur að svara: „Chris Smalling og Victor Lindelöf,“ sagði Hjörvar og Brynjar Björn Gunnarsson tók undir það.

„Lindelöf hefur fengið mikla gagnrýni undanfarin en ég er ekki tilbúinn að afskrifa hann alveg,“ sagði Brynjar Björn.

„Það sem kannski vantar í þessa hafsenta fernu er einn afgerandi hafsent. Við sáum það á fyrirgjöfum inn í vítateiginn undir lok leiksins á móti Burnley. Þeir voru ekki að ráða neitt sérstaklega vel við það,“ sagði Brynjar Björn.

Eru miðverðir Manchester United í dag því ekki leiðtogaefni?

„Þeir taka ekki stjórn á stöðunni inn í teig og stanga ekki þá bolta í burtu sem þarf að stanga í burtu,“ sagði Brynjar Björn.

Það má finna alla umfjöllun Messunnar um miðvarðavandræði Manchester United hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×