Fótbolti

Raggi Sig : „Talaði við nýju þjálfarana og fannst spennandi hlutir vera að koma“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
S2 Sport
Ragnar Sigurðsson tilkynnti eftir HM í Rússlandi að hann væri hættur í landsliðinu. Hann hefur tekið þá ákvörðun til baka og er mættur á landsliðsæfingu í Austurríki.

Íslenska landsliðið kom saman til æfinga í Schruns í Austurríki í dag. Liðið á fram undan tvo leiki í Þjóðadeild UEFA. Guðmundur Benediktsson er einnig mættur til Austurríkis og spjallaði hann við Ragnar á æfingunni í dag.

Fyrsta spurningin var einföld, afhverju varstu hættur í landsliðinu?

„Ég hafði mínar persónulegu ástæður fyrir því, sem ég vil helst ekkert fara nánar út í,“ sagði Ragnar. „En það eru margir búnir að hvetja mig til þess að halda áfram. Margir frá KSÍ hafa hringt í mig og spurt mig út í þetta.“

„Svo talaði ég við nýju þjálfarana og mér finnst eins og það séu spennandi hlutir að fara að koma.“

„Það eru komnir nýir þjálfarar og nýtt blóð, mér fannst það bara frekar spennandi.“

Ragnar Sigurðsson og Sverrir Ingi Ingason eru saman í miðverðinum í Rostov. Verða þeir miðvarðarpar Íslands í næstu leikjum?Vísir/Getty
Erik Hamrén er nýi maðurinn í brúnni hjá íslenska landsliðinu. Hvernig lýst Ragga á hann?

„Ég hitti hann bara í dag í fyrsta skipti en hann virðist vera fyndinn gæi og hann veit hvað hann er að tala um.“

Ragnar er á mála hjá rússneska úrvalsdeildarliðinu Rostov, sem er orðið að lítilli íslenskri nýlendu. Viðar Örn Kjartansson gekk til liðs við Rostov á föstudag og varð fjórði Íslendingurinn hjá liðinu.

„Við erum að fá Viðar núna og ég hlakka til þess að sjá hann og Björn [Bergmann Sigurðarson] spila saman, ég held þeir geti gert góða hluti.“

„Við þurfum ekki fleiri Íslendinga en það kæmi mér ekki á óvart að hann næði í fleiri, hann elskar Íslendinga eigandi liðsins,“ sagði Ragnar Sigurðsson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×