Fótbolti

Wesley Sneijder kvaddi hollenska landsliðið á stórfurðulegan hátt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wesley Sneijder með fjölskyldunni í sófanum.
Wesley Sneijder með fjölskyldunni í sófanum. Vísir/Getty
Wesley Sneijder spilaði í gærkvöldi sinn síðasta landsleik fyrir Holland en kveðjuathöfn hans í gær var eitthvað sem þú sérð ekki á hverjum degi í boltanum.

Wesley Sneijder lék alls í fimmtán ár með hollenska landsliðinu og var með 31 mark í 134 landsleikjum frá 2003 til 2018.

Síðasti leikurinn var vináttulandsleikur á móti Perú á Johan Cruyff Arena í Amsterdam í gærkvöldi þar sem Hollendingar unnu 2-1 endurkomusigur þökk sé tveimur mörkum frá Memphis Depay.

Sneijder fékk enga venjulega kveðjuathöfn í leikslok og margir myndu jafnvel kalla hana stórfurðulega.

Eftir leikinn þá settist Wesley Sneijder í sófa sem hafði verið stillt upp á miðjum vellinum og var með fjölskyldu sína með sér, eiginkonuna Yolanthe Cabau van Kasbergen og tvö börn. Fyrir framan sófann var sjónvarp.

Þetta var í raun eins og góð eftirmynd af stofunni heima en staðfest á miðjum fótboltavelli.





Þar horfðu þau öll saman á samantektarmyndband frá frábærum landsliðsferli Wesley Sneijder en enginn leikmaður hefur spilað fleiri landsleiki fyrir Hollandi. Sneijder hafði slegið met Edwin van der Sar. Hann er einnig tíundi markahæsti leikmaður hollenska landsliðsins frá upphafi, 19 mörkum á eftir methafanum Robin van Persie.

Einn af hápunktunum á landsliðsferlinum var þegar Wesley Sneijder, sem fyrirliði liðsins, leiddi hollenska landsliðið upp í þriðja sæti á HM í Brasilíu 2014 en fjórum árum fyrr í Suður Afríku hafði liðið farið alla leið í úrslitaleikinn.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×