Umfjöllun: Ísland - Þýskaland 0-2 | Þjóðverjar í bílstjórasætið eftir sigur á Íslandi

Víkingur Goði Sigurðarson á Laugardalsvelli skrifar
Fanndís Friðriksdóttir sækir að þýska markinu.
Fanndís Friðriksdóttir sækir að þýska markinu. Vísir/vilhelm
Draumur íslenska landsliðsins um að komast á HM í Frakklandi næsta sumar lifir enn þrátt fyrir 2-0 tap á Laugardalsvelli gegn Ólympíumeisturum Þýskalands í dag. Sigur í leiknum hefði tryggt Íslandi sæti á heimsmeistaramótinu en nú þurfa stelpurnar að fara lengri leiðina til að komast inn á mótið.

Íslenska liðið sýndi strax í upphafi að þær ætluðu að gefa allt í þetta verkefni. Mikil vinna var lögð í varnarleikinn og svo átti að nýta innköst, skyndisóknir og föst leikatriði til að koma boltanum í netið. Íslenska liðið spilaði með þrjá miðverði sem gerðu vel í að loka teignum.  

Ef Ísland fékk innkast á vallarhelmingi Þýskalands var það tekið langt og átti augljóslega að nýta öll þau innköst sem þær fengu. Fyrsta færi leiksins kom einmitt úr innkasti á þriðju mínútu þegar Berglind Björg var nálægt því að ná skoti á markið á hættulegum stað í þýska teignum.

Íslenska liðið spilaði skipulagðan varnarleik og þrátt fyrir að Þjóðverjarnir hafi mun meira verið með boltann í upphafi leiks voru þær ekki að skapa mikið af færum. Þær þýsku reyndu mikið af langskotum þar sem miðverðirnir þrír lokuðu teignum vel. Á 12. mínútu átti Sara Däbritz hörkuskot utan af velli sem hafnaði í slánni og út.

Kom Þjóðverjum yfir

Fyrsta skot Íslands átti Hallbera Gísladóttir en hún negldi boltanum rétt framhjá markinu eftir að boltinn skoppaði til hennar eftir hornspyrnu. Annars var lítið um færi hjá stelpunum okkar í fyrri hálfleik.

Svenja Huth skoraði fyrsta mark leiksins fyrir Þýskaland á 42. mínútu. Guðbjörg Gunnarsdóttir, markmaður íslenska liðsins, varði boltann eftir hörkuskot frá Melanie Leupolz utan teigs, en boltinn barst þá til Huth sem skoraði örugglega og kom Þjóðverjum yfir. Þýska liðið var þá búið að vera töluvert meira í sókn undir lok fyrri hálfleiks og búnar að fá nokkur ágætis færi.

Þýsku stelpurnar byrjuðu seinni hálfleikinn af krafti og var mark réttilega dæmt af þeim á 50. mínútu. Aftur hafði skapast hætta eftir að Guðbjörg varði skot út í teiginn en í þetta skiptið braut þýski sóknarmaðurinn á Guðbjörgu og skoraði í kjölfarið en dómarinn dæmdi réttilega aukaspyrnu.

Þjóðverjar voru ekki lengi að koma sér aftur í færi en nokkrum mínútum seinna skaut Lea Schuller yfir mark Íslands eftir darraðadans í teignum.

Þær þýsku voru mun hættulegri í upphafi seinni hálfleiks en Fanndís Friðriksdóttir átti besta færi Íslands í dag á 57. mínútu þegar hún lét vaða rétt fyrir utan teig Þýskalands þar sem boltinn fór rétt framhjá stönginni.

Þjóðverjar komast í 2-0
Sara Björk Gunnarsdóttir og Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir í baráttunni í dag.Vísir/Vilhelm
Svenja Huth var aftur á skotskónum á 72. mínútu en hún setti þá boltann framhjá Guðbjörgu eftir fyrirgjöf frá Carolin Simon, vinstri bakverði Þýskalands. Markið kom á tímapunkti í leiknum þar sem lítið var að gerast og því var mjög svekkjandi fyrir íslenska liðið að vera komnar 2-0 undir.

Leikurinn endaði 2-0 en stelpurnar okkar börðust eins og ljón fram að lokaflauti. Svekkjandi úrslit hjá stelpunum okkar gegn gríðarlega sterkum andstæðingi. Það voru 9.636 áhorfendur á leiknum í dag og fann maður vel fyrir þeim.

Hvernig kemst Ísland á HM?
Það var mikil stemmning hjá þeim 9636 áhorfendum sem mættu á Laugardalsvöll í dag.Vísir/Vilhelm
Enn eru tvær mögulegar leiðir fyrir íslenska landsliðið að komast á HM. Ef þær vinna riðillinn komast þær beint á mótið en ef þær lenda í öðru sæti þurfa þær að fara í umspil. 

Eftir leikinn eru þær í öðru sæti, tveimur stigum á eftir Þýskalandi þegar einum leik er ólokið. Þýskaland á eftir að fara til Færeyja en færeyska liðið er stigalaust og með markatöluna 1-45 eftir fyrstu sjö leikina.

Ef Færeyjar vinna Þýskaland og Ísland vinnur Tékkland á þriðjudaginn vinnum Ísland riðilinn og fer beint á HM.

Þremur stigum á eftir Íslandi, í þriðja sæti riðilsins, er Tékkland með 13 stig. Ef Ísland tapar ekki gegn Tékkum þá er annað sætið öruggt. Það fara hins vegar bara 4 af 7 bestu liðunum í öðru sæti í umspilið og því þurfa stelpurnar mögulega að treysta á önnur úrslit til að komast í umspilið.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira