Tvö mörk, vítaklúður og rautt spjald er United komst aftur á sigurbraut

Vísir/Getty
Romelu Lukaku skoraði bæði mörk Manchester United er liðið vann 2-0 sigur á Burnley á Turf Moor. Sigurinn var mikilvægur fyrir United eftir erfiða byrjun.

Það var enginn Jóhann Berg Guðmundsson í leikmannahópi Burnley en hann er að glíma við meiðsli og verður ekki með Íslandi í Þjóðadeildinni í næstu viku.

United komst yfir á 27. mínútu en eftir frábæra fyrirgjöf Alexis Sanchez skallaði Lukaku boltann í netið framhjá varnarlausum Joe Hart.

Skömmu síðar var Lukaku aftur á ferðinni en hann kom þá United í 2-0. Boltinn barst til hans eftir darraðadans í teig Burnley og hann kláraði færið vel. 2-0 í hálfleik.

United fékk vítaspyrnu eftir um sjötíu mínútur en Paul Pogba lét Joe Hart verja frá sér.

Á 71. mínútu dró svo til tíðinda. Marcus Rashford hafði einungis verið inn á vellinum í tíu mínútur er hann fékk rautt spjald eftir átök við Phil Bardsley.

Fleiri urðu mörkin ekki og lokatölur 2-0 sigur United sem er því komið með sex stig eftir fyrstu fjóra leikina. Burnley er einungis með eitt stig eftir fjóra leiki.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira