Erlent

Baghdadi kallar eftir árásum

Samúel Karl Ólason skrifar
Abu Bakr al-Baghdadi hefur aðeins einu sinni komið opinberlega fram. Það var þegar hann lýsti yfir stonfun Kalífadæmis ISIS í Mosul 2014.
Abu Bakr al-Baghdadi hefur aðeins einu sinni komið opinberlega fram. Það var þegar hann lýsti yfir stonfun Kalífadæmis ISIS í Mosul 2014. Vísir/AP

Íslamska ríkið birti í vikunni upptöku sem á að vera af Abu Bakr al-Baghdadi, leiðtoga hryðjuverkasamtakanna. Þó ekki hafi verið sannreynt að fullu að upptakan sé í raun af Baghdadi þykir það mjög líklegt og þýðir það að hann hafi ekki fallið í loftárás fyrr í mánuðinum, eins og talið var mögulegt. Í ræðu sinni hvatti Baghdadi fylgjendur sína til að halda baráttu þeirra áfram og kallaði eftir svokölluðum „lone wolf“ árásum í Evrópu, Bandaríkjunum og Kanada.

Í upptökunni vitnar Baghdadi í nýlegar vendingar í Sýrlandi og deilur Tyrkja og Bandaríkjanna vegna prestsins Andrew Brunson, sem gefur í skyn að hún hafi verið tekin upp nýlega. Baghdadi sendi síðast frá sér upptöku þann 28. september 2017 en hann er talinn vera í felum í eyðimörkinni á landamærum Írak og Sýrlands.

Sýrlenskir Kúrdar og Bandaríkin undirbúa nú árás á það svæði.

Baghdadi nefndi ekki sérstaklega að ISIS-liðar hefðu tapað nánast öllu yfirráðasvæði sínu í Írak og Sýrlandi. Þess í stað sagði hann að sigur eða tap væri ekki bundið við það að halda borg eða þorpi.

Það er til marks um þær vísbendingar að Íslamska ríkið sé nú að ganga í gegnum endurhönnun, ef svo má að orði komast. Að samtökin séu að snúa sér aftur að nokkurs konar hefðbundinni hryðjuverkastarfsemi.

Sjá einnig: Fækkun hryðjuverka í Evrópu mögulega tímabundin

Samkvæmt Guardian sagði Baghdadi að Bandaríkin væru að ganga í gegnum erfiðasta tímabil í sögu ríkisins og sagði hann Rússa vera að berjast við Bandaríkin um áhrif víða um heim. Þá gagnrýndi hann uppreisnarmenn og vígahópa í suðurhluta Sýrlands fyrir að lúffa fyrir stjórnarher Bashar al-Assad, forseta Sýrlands. Hann sagði forsvarsmenn þeirra hópa vera svikara og hvatti vígamenn til að ganga til liðs við ISIS í staðinn.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.