Watford með fullt hús eftir fyrsta heimasigurinn á Palace í níu ár

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Leikmenn Watford fagna í dag
Leikmenn Watford fagna í dag Vísir/Getty
Watford fer upp að hlið Liverpool á toppi ensku úrvalsdeildarinnar eftir sigur á Crystal Palace á heimavelli sínum í dag.

Gestirnir í Crystal Palace áttu tvö dauðafæri snemma leiks en náðu ekki að nýta sér þau. Argentínumaðurinn Roberto Pereyra svaraði með góðu skoti fyrir Watford sem James McArthur náði að komast fyrir. Staðan markalaus í hálfleik.

Pereyra kom Watford yfir eftir 53 mínútur. Argentínumaðurinn hafði verið ógnandi og náði loks að klára skot sitt í markið. Tæpum tuttugu mínútum seinna tvöfaldaði Jose Holebas forystuna með glæsilegu skoti, sem átti þó líklegast að vera fyrirgjöf.

Wilfried Zaha varð markahæsti maður í sögu Palace í ensku úrvalsdeildinni þegar hann minnkaði muninn á 78. mínútu eftir lagleg dansspor í teignum.

Nær komst Palace þó ekki og Watford vann fyrsta sigur sinn á heimavelli gegn Palace síðan 2009. Vespurnar og Liverpool eru einu liðin í deildinni með fullt hús stiga eftir þrjá leiki. Chelsea og Tottenham geta þó bæst í þann hóp áður en umferðin er úti.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira