Sjálfsmark Yedlin gaf Chelsea sigurinn

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Leikmenn Chelsea gátu fagnað í leikslok
Leikmenn Chelsea gátu fagnað í leikslok Vísir/Getty
Chelsea er með fullt hús stiga eftir fyrstu þrjár umferðirnar í ensku úrvalsdeildinni eftir sigur á Newcastle í dag.

Fyrri hálfleikurinn var markalaus þrátt fyrir að Chelsea hafði fengið nóg af færum, þeir bláklæddu áttu í erfiðleikum með að hitta á rammann.

Ísinn var loks brotinn þegar aðeins um korter lifði af leiknum. Marcos Alonso fór niður í teignum og fékk vítaspyrnu, Eden Hazard fór á punktinn og skoraði.

Newcastle var hins vegar ekki lengi að svara. David Luiz gerði sig sekan um stór mistök í vörninni, stóð kyrr í teignum þegar fyrirgjöfin kom inn, Joselu gat stungið sér fram fyrir Brasilíumanninn og skallað í netið.

Sigurmarkið kom á 87. mínútu upp úr aukaspyrnu Chelsea. Boltinn barst á Marcos Alonso sem skaut í átt að marki, boltinn fór af DeAndre Yedlin og í markið, sjálfsmark.

Lokatölur 2-1 og Chelsea bætist í hóp Liverpool og Watford á toppnum með fullt hús eftir þrjá leiki.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira