Fótbolti

Arsène Wenger fékk höfðinglegar móttökur og orðu í Líberíu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arsène Wenger fær hér orðuna frá George Weah.
Arsène Wenger fær hér orðuna frá George Weah. Vísir/EPA
Fyrir þá sem eru að pæla í því hvar Arsène Wenger, fyrrum knattspyrnustjóri Arsenal, er staddur á hnettinum í dag þá er franski stjórinn kominn til Líberíu í vestur Afríku.

Líberíumenn veittu Wenger hæstu orðu þjóðarinnar í dag en Frakkinn verður þá tekinn inn í fámennan hóp fólks sem hefur fengið „Order of Distinction“ í landinu.





Gamla fótboltagoðsögnin George Weah er nú forseti Líberíu og hefur verið það síðan í janúar.

Það var einmitt Arsène Wenger sem sótti George Weah til Evrópu á sínum tíma eða þegar Wenger var knattspyrnustjóri hjá Mónakó. Weah kom til Mónakó árið 1988 en hann var þarna 22 ára og skoraði 14 mörk í 23 leikjum fyrsta tímabilið sitt með Mónakó liðinu 1988-89.

Árið 1995 varð George Weah fyrsti og eini Afríkumaðurinn til að vera kosinn besti knattspyrnumaður Evrópu. Þá hafði Weah farið frá Mónakó til Paris Saint-Germain og þaðan til AC Milan á Ítalíu.

Wenger fær titilinn „Knight Grand Commander of the Humane Order of African Redemption“.





Arsène Wenger fékk höfðinglegar móttökur á flugvellinum sem er í 52 kílómetra fjarlægð frá höfuðborginni Monrovia. Wenger sagði á flugvellinum að hann væri kominn til að heimsækja George Weah og að hann vissi ekki af orðuveitingunni.

George Weah hefur líka verið gagnrýndur í Líberíu fyrir að láta Wenger fá orðu fyrir það sem hann gerði fyrir forsetann persónulega en ekki fyrir eitthvað sem hann gerði fyrir líberísku þjóðina.

Þjálfarnir sem gerðu hann að þeim leikmanni sem hann var orðinn 22 ára gamall ættu alveg eins skilið slíka orðu eins og Wenger.

Eugene Nagbe sem starfar sem upplýsingaráðherra í ríkisstjórn landsins, segir að Wenger hafi þarna opnað dyrnar fyrir afríska knattspyrnumenn til Evrópu og hafi þar með gert mikið fyrir Líberíu og alla Afríku.

Sextán afrískir leikmenn léku fyrir Wenger hjá Arsenal og þar á meðal voru Fílabeinsstrendingurinn Kolo Toure, Kamerúnmaðurinn Lauren og Nígeríubúinn Nwankwo Kanu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×