Innlent

Íslenskir flugrekendur juku koltvísýringslosun um rúm 13%

Kjartan Kjartansson skrifar
Losun frá flugi á Íslandi hefur aukist í takti við vaxandi ásökn erlendra ferðamanna.
Losun frá flugi á Íslandi hefur aukist í takti við vaxandi ásökn erlendra ferðamanna. Vísir/GVA

Aukning í losun gróðurhúsalofttegunda sem valda loftslagsbreytingum frá Evrópuflugi íslenskra flugrekenda hélt áfram á síðasta ári þrátt fyrir að þeim fækkaði um einn. Losunin jókst um 13,2% frá árinu áður. Þá er hvorki talin með losun erlendra flugrekenda né Ameríkuflug íslenskra félaga.

Fimm íslenskir flugrekendur hafa gert upp losunarheimildir sinar í viðskiptakerfi Evrópusambandsins en þeim hefur fækkað um einn á milli ára. Heildarlosun í flugi sem fellur undir kerfið var 813.745 tonn af koltvísýringsígildum, að því er segir í frétt á vef Umhverfisstofnunar.

Losunin frá flugferðum Icelandair, Wow Air, Air Iceland Connect, Air Atlanta og Bláfugls nam 13,2% á milli áranna 2016 og 2017. Þar er hins vegar aðeins talin losun sem á sér stað innan evrópska efnahagssvæðisins en ekki Ameríkuflug.

Tölurnar ná einnig aðeins yfir losun íslenskra flugrekenda en ekki þess fjölda erlendra félaga sem flýgur til og frá landinu. Samkvæmt upplýsingum á vef Isavia fljúga 32 flugfélög frá Keflavíkurflugvelli.

Sjö rekstraraðilar iðnaðar gerðu einnig upp heimildir sínar og jókst losun þeirra um 2,8% á milli ára. Losun þeirra nam 1.831.667 tonnum af koltvísýringsígildum. Miðað við þær tölur nemur losun frá Evrópuflugi íslenskra flugrekenda nú um 44% af losun frá iðnaði á Íslandi.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.