Innlent

Blautt og hlýtt

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Létt regnföt ættu að vera rétti klænaðurinn í dag.
Létt regnföt ættu að vera rétti klænaðurinn í dag. VÍSIR/EYÞÓR

Rigning mun setja svip á veðrið á nær öllu landinu næstu daga. Engu að síður má búast við ágætis hlýindum, en samkvæmt spákortum Veðurstofunnar gæti hitinn náð 20 stigum í dag.

Gert er ráð fyrir suðaustlægri átt á landinu í dag, vindur verður yfirleitt fremur hægur en allra syðst gæti orðið vart við hvassviðri. Einnig verður skýjað að mestu sunnan- og vestanlands og víðast þurrt, en mestar líkur á einhverri vætu við suðvesturströndina í dag. Þá verður bjart að mestu norðan- og austanlands, en þó líkur á stöku síðdegisskúrum, einkum í innsveitum. Sem fyrr segir verður fremur hlýtt í veðri í dag og gæti hitinn náð allt að 20 stigum, þá sérstaklega inn til landsins.

Það verður hins vegar svalara á morgun og þá einna helst á Suðurlandi. Þar mun að sama skapi fara að rigna og bæta í vind þegar líður á daginn. Einnig mun þykkna smám saman upp fyrir norðan. Vindur verður þó orðinn hægari annað kvöld og gera má ráð fyrir rigningu í flestum landshlutum. Hitinn mun líklega hæst fara í um 15 gráður á morgun.

Þá er búist við næstu lægð um miðja vikuna, með tilheyrandi roki og rigningu.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á þriðjudag:
Austlæg átt, 8-15 m/s, hvassast syðst og rigning um landið sunnanvert, en lengst af þurrt fyrir norðan. Dregur úr vindi og úrkomu síðdegis. Hiti 10 til 15 stig.

Á miðvikudag:
Norðaustlæg átt, 5-13 m/s, víða dálítil rigning. Hiti 9 til 14 stig.

Á fimmtudag:
Norðlæg eða breytileg átt 5-10 m/s. Væta með köflum fyrir norðan, en bjart að mestu syðra. Hiti 8 til 16 stig, mildast syðst.

Á föstudag:
Gengur í norðan 8-15 m/s með rigningu í flestum landshlutum. Léttir til sunnanlands um kvöldið. Hiti 7 til 14 stig, mildast sunnanlands.

Á laugardag:
Norðvestlæg átt og rigning norðantil á landinu og hiti 5 til 10 stig, en bjartviðri sunnanlands og hiti 9 til 15 stig.

Á sunnudag:
Snýst í sunnanátt með rigningu, en léttir til norðan- og austanlands. Hiti 8 til 15 stig, mildast norðaustanlands.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.