Innlent

Gísli Marteinn deilir við lögreglu um „byltingu gegn hjólreiðum“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Gísli Marteinn Baldursson er mikill áhugamaður um hjólreiðar. Lögregla bað hjólreiðafólk að vanda sig í umferðinni í gær.
Gísli Marteinn Baldursson er mikill áhugamaður um hjólreiðar. Lögregla bað hjólreiðafólk að vanda sig í umferðinni í gær. Vísir/Samsett
Gísli Marteinn Baldursson, sjónvarpsmaður og áhugamaður um hjólreiðar, deilir við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu á Twitter í dag vegna tilkynningar um hjólreiðafólk sem lögregla sendi frá sér í gær. Lögregla hafnar því að taka þátt í „byltingu gegn hjólreiðum“ en segir að færslu gærdagsins hefði mátt „orða betur.“

Sjá einnig: Segir lögreglu ala á fordómum í garð hjólreiðafólks



Tilkynning lögreglu vakti mikla athygli í gær en í henni var hjólreiðafólk hvatt til að „gera betur í umferðinni“ vegna tíðra kvartana sem lögreglu hafa borist vegna þess. Páll Guðjónsson, ritari Landssamtaka hjólreiðamanna, gagnrýndi ummælin í samtali við Vísi í gær og sagði lögreglu ala á fordómum í garð hjólreiðafólks.

Gísli er sama sinnis og segir það sorglegt að lögregla taki þátt í „herferð Moggans gegn hjólum“ og vísar auk þess í meinta andstöðu Morgunblaðsins við aðalskipulag Reykjavíkurborgar fyrir árið 2030. Í skipulaginu er m.a. gert ráð fyrir þéttingu byggðar og aukinni áherslu á almennings- og vistvænar samgöngur, þar á meðal hjólreiðar.

„Mogginn mun tapa þessu stríði sínu en vont að löggan vilji tapa trúverðugleikanum með þeim,“ skrifar Gísli.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu svarar þessum ummælum Gísla og segir enga andúð á reiðhjólafólki að finna innan raða lögreglu.

„Afar sorglegt að þú skulir spyrða okkur saman við slíka herferð án þess svo mikið sem að hafa rætt málið við okkur. Vinsamlegast ekki væna okkur um slíkt,“ skrifar lögregla á opinberum Twitter-reikningi sínum.

Umræðum Gísla og lögreglu virðist þó lykta með sættum. Lögregla viðurkennir að færslu gærdagsins hefði eflaust mátt orða betur og Gísli þakkar lögreglu á móti fyrir góð svör.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×