Innlent

Lögreglan biður reiðhjólafólk um að gera betur

Samúel Karl Ólason skrifar
Hjólreiðamenn eru meðal annars sagðir hjóla glannalega og í veg fyrir aðra vegfarendur, ýmist á akbrautum eða göngustígum.
Hjólreiðamenn eru meðal annars sagðir hjóla glannalega og í veg fyrir aðra vegfarendur, ýmist á akbrautum eða göngustígum. Vísir/ERnir
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur fengið fjölmargar kvartanir vegna reiðhjólafólks í sumar. Hjólreiðamenn eru sakaðir um að „virða allar umferðarreglur að vettugi og skeyta í engu um aðra vegfarendur í umferðinni,“ eins og það er orðað í tilkynningu lögreglunnar. Þar segir enn fremur að ábendingar eða kvartanir hafi borist frá vegfarendum í öllum sveitarfélögum umdæmisins og „segir það sína sögu“.

Hjólreiðamenn eru meðal annars sagðir hjóla glannalega og í veg fyrir aðra vegfarendur, ýmist á akbrautum eða göngustígum.

„Eru þessir sömu hjólreiðamenn sagðir tillitslausir með öllu að mati þeirra sem hafa kvartað, en þeim síðarnefndu hefur oft verið mikið niðri fyrir þegar þeir hafa hringt í lögregluna og bent á þá miklu slysahættu sem þessu fylgir.“

Því biðlar lögreglan til hjólreiðamanna, sem kvartanir þessar eiga við, að gera betur. Sýna kurteisi og tillitssemi og virða umferðarreglur. Þá vísar lögreglan til myndbands Samgöngustofu um þau atriði sem mestu máli skipta þegar hjólað er á gangstígum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×