Innlent

Opnuðu fjöldahjálparstöð á Klaustri fyrir hóp hestamanna

Kjartan Kjartansson skrifar
Brúnni yfir Eldvatn var lokað vegna hlaupsins. Hlaupið fyrir þremur árum gróf verulega undan brúnni.
Brúnni yfir Eldvatn var lokað vegna hlaupsins. Hlaupið fyrir þremur árum gróf verulega undan brúnni. Vísir/Jóhann K. Jóhannsson

Hópur hestamanna sem ætlaði sér að gista í skála í hálendismiðstöðinni í Hólaskjóli var fluttur í fjöldahjálparmiðstöð í Kirkjubæjarklaustri í kvöld vegna gruns um gasmengun frá Skaftárhlaupi. Yfirlögregluþjónn segir að hlaupið virðist ætla að ganga hratt fyrir sig.

Hætta var einnig talin á að hópurinn gæti orðið innlyksa í skálanum ef hlaupið lónaði yfir vegi í kring, að sögn Sveins Kristjáns Rúnarssonar, yfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á Suðurlandi. Hluti hópsins hélt áfram að Álftavatni en björgunarsveitarmenn fluttu aðra í grunnskólann á Kirkjubæjarklaustri þar sem Rauði krossinn opnaði fjöldahjálparmiðstöð.

Fjallabaksleið nyrðri austan Eldgjár og við Hvamm í Skaftártungum hefur verið lokað vegna hlaupsins og brúnni yfir Eldvatn sömuleiðis. Hlaupið árið 2015 gróf töluvert undan henni og því er fylgst grannt með henni nú.

Sveinn Kristján segir að lögreglan verði með vakt á svæðinu í kvöld og í nótt. Hún fylgist meðal annars með því að viðhalda lokunum. Veðurstofan sé einnig með vatnamælingafólk á staðnum. Allt hafi gengið vel fram að þessu.

Hlaupið hefur gengið hratt fyrir sig og segir Sveinn Kristján að það hafi náð að innstu bæjum í Skaftártungu um hálf níu leytið í kvöld. Hámarkið verði að líkindum í nótt.

Hlaupið kom fyrr fram en búist var við. Talið er að það nái hámarki í nótt.Vísir/Jóhann K. Jóhannsson

Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×