Innlent

Lýsa yfir áhyggjum af "þekkingarleysi“ formanns velferðarráðs

Atli Ísleifsson skrifar
Ráðhúsið í Reykjavík.
Ráðhúsið í Reykjavík. Vísir/Vilhelm

Flokkar í minnihluta borgarstjórnar Reykjavíkur og formaður og formaður VR, Ragnar Þór Ingólfsson, hafa lýst yfir áhyggjum af „þekkingarleysi“ formanns velferðarráðs Reykjavíkur og varaformanns Samfylkingarinnar, Heiðu Bjargar Hilmisdóttur, á húsnæðismarkaðnum í Reykjavík.

Þetta kemur fram í sameiginlegri yfirlýsingu frá Sjálfstæðisflokknum, Miðflokknum, Flokki fólksins og Sósíalistaflokksins sem send var á fjölmiðla nú síðdegis.

„Tilefnið er ummæli hennar í þættinum Vikulokunum á Rás 1 í morgun, þar sem hún sagði 1000 íbúðir í byggingu á vegum óhagnaðardrifinna leigufélaga. Þetta er rangt. Hið rétta er að 256 íbúðir, svo vitað sé, eru í byggingu á vegum óhagnaðardrifinna leigufélaga í Reykjavík og hefur borgin gefið út 551 byggingarleyfi til handa slíkum leigufélögum, sem er víðs fjarri þeim 1000 íbúðum sem formaður velferðarráðs, Heiða Björg Hilmisdóttir, heldur fram að séu í byggingu.

Heiða Björg Hilmisdóttir. Fréttablaðið/Vísir

Þá hafnaði formaður velferðarráðs jafnframt þeirri staðreynd að byggingaréttargjald hefði áhrif á leiguverð í Reykjavík. Á meðan staðreyndin er sú að byggingarréttargjaldið, sem er 45.000 kr. á hvern fermetra, veldur verulegum töfum á byggingu leiguíbúða í Reykjavík en gjaldið leggst á leiguverð sem eykur greiðslubyrði leigjanda til muna og getur gjaldið numið hundruðum þúsunda árlega fyrir hverja íbúð.

Þessi ummæli formanns velferðarráðs undirstrika skilningsleysið á þeim brýna húsnæðisvanda sem er í Reykjavík. Stjórnarandstöðuflokkarnir í borgarstjórn Reykjavíkur, hafa nú þegar lagt fram tillögur til lausnar vandans en þær tillögur hafa því miður ekki náð fram að ganga. Stjórnarandstöðuflokkarnir og formaður VR skora á meirihlutaflokkana í borginni að bregðast við vandanum með því að taka undir tillögur stjórnarandstöðuflokkanna í húsnæðismálum,“ segir í yfirlýsingunni.

Uppfært klukkan 21:35:
Heiða Björg Hilmisdóttir hefur svarað yfirlýsingu minnihlutans og formanns á VR á Facebook-síðu sinni og vísar ávirðingum þeirra til föðurhúsanna.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.