Innlent

Tekinn á rúmlega tvöföldum hámarkshraða

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Frá lögregluaðgerðum á Sæbraut, myndin er úr safni.
Frá lögregluaðgerðum á Sæbraut, myndin er úr safni. Vísir/HAG
Ungur ökumaður var stöðvaður í nótt eftir að hafa ekið um Sæbraut á ógnarhraða. Fram kemur í skeyti lögreglunnar að ökumaðurinn, sem er um tvítugt, hafi verið mældur á næstum 150 km/klst hraða, en hámarkshraðinn á Sæbraut er aðeins 60 km/klst. Var ökumaðurinn ungi því á rúmlega tvöföldum hámarkshraða. Hann var færður á lögreglustöð þar sem hann var sviptur ökuréttindum til bráðabirgða.

Þá voru tveir ölvaðir menn til vandræða í nótt. Annar þeirra var handtekinn í Austurstræti eftir að hann hafði hótað vegfarendum. Þá er hann jafnframt grunaður um þjófnað - en hverju hann á að hafa stolið fylgir ekki sögunni. Hann var fluttur í fangaklefa þar sem hann hefur mátt verja nóttinni.

Hinn drykkurúturinn var handtekinn við veitingahús í Hafnarfirði, þar sem hann hafði verið með „leiðindi og farinn að slá til gesta,“ eins og það er orðað í skeyti lögreglunnar. Ákveðið var því að handtaka manninn og flytja í fangaklefa en lögreglan segist hafa haft afskipti af honum áður.

Einnig var tilkynnt um opna svalahurð í Grafarvogi á sjöunda tímanum í gærkvöldi. „Er lögregla kom á vettvang var búið að fara inn og róta í öllu og hella niður matvöru ofl,“ segir í skeyti lögreglunnar. Eigandi íbúðarinnar er sagður vera erlendis og mætti því faðir hans á vettvang - „og gerði ráðstafanir.“ Hvað í þeim fólst fylgir hins vegar ekki sögunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×